Viðskipti innlent

Ráðuneytið telur mjólkurgeirann í samræmi við EES samning

Ingvar Haraldsson skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda
Atvinnuvegaráðuneytið telur að íslenskur mjólkuriðnaður falli innan samkeppnislaga EES-samningsins. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), sem sent var í byrjun mánaðarins. ESA vildi fá skýringar á ákvæðum búvörulaganna sem veita mjólkuriðnaði undanþágur frá samkeppnislögum.

Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá ESA, sagði við Fréttablaðið í febrúar að verði niðurstaða athugana ESA sú að undan­þága búvörulaga standist ekki samkeppnisreglur EES-samningsins geti Samkeppniseftirlitið og ESA beitt sér á mjólkurmarkaði, t.d. með sektum, gerist félög á þeim markaði brotleg við samkeppnislög. Þá sé einnig hugsanlegt að farið verði fram á að íslenskum búvörulögum verði breytt.

Vörurnar sem um ræðir eru að sögn Mathiesen í meginatriðum rjómi, jógúrt og gerjaðar mjólkurafurðir. Ráðuneytið telur vörurnar sem um ræðir vera framleiddar við eðlilegar markaðsaðstæður og í samræmi við samkeppnisreglur EES-samningsins.

Áhöld eru um hvort skyr flokkist sem gerjuð mjólkurafurð. ESA spurði ráðuneytið sérstaklega út í flokkun sína á skyri. Ráðuneytið segist flokka ferskan ost í samræmdri vörulýsingar- og vörunúmeraskrá. Miðað við þá skilgreiningu fellur varan ekki undir samkeppnisákvæði EES-samningsins sem gerjuð mjólkurafurð.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, telur flokkun ráðuneytisins koma spánskt fyrir sjónir þar sem skyr sé ekki talið upp með öðrum ostum í ákvörðun verðlagsnefndar búvara.

Þá skorar Ólafur á Alþingi að bíða með að samþykkja nýjan búvörusamning þar til athugun ESA lýkur til að komast hjá hugsanlegri skaðabótaskyldu ríkisins vegna málsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×