Erlent

Mikill fjöldi Kúrda handtekinn eftir hryðjuverkaárásirnar á laugardag

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Tyrkneska lögreglan hefur handtekið fjölda Kúrda eftir hryðjuverkaárásirnar við Vodafone- leikvanginn í Istanbúl í fyrrakvöld. Klofningshópur úr Verkamannaflokki Kúrdistans lýstu yfir ábyrgð á sprengingunum síðdegis í gær. Ólga hefur verið í Tyrklandi síðustu misseri eftir valdaránstilraunina í sumar.

 

Hryðjuverkamennirnir sem sprengdu tvær við heimavöll knattspyrnuliðsins Besiktas notuðu þrjú til fjögurhundruð kíló af sprengiefni í tveimur sprengjum sem sprungu með tæplega mínútu millibili. Þrjátíu og átta eru staðfestir látnir og hundrað fimmtíu og fimm særðir flestir þeirra liðsmenn öryggislögreglunnar.

Í aðgerðum lögreglunnar síðasta sólarhringinn hefur lögreglan í Tyrklandi handtekið hundrað og átján embættismenn, þar af forystumenn Lýðræðisflokks alþýðunnar í Istanbúl og Ankara sem er helsti stjórnmálaflokkur Kúrda.

Klofningshópur úr PKK, skæruliðasamtökum Kúrda sem kalla sig Frelsisfálkar Kúrdistans eða TAK, lýstu yfir ábyrgð á sprengingunni í gær sem og öðrum árásum sem gerðar hafa verið í Tyrklandi á þessu ári.

Tengsl hópanna tveggja hafa verið óljós en þeir eiga það sameiginlega að vera álitnir hryðjuverkasamtök. Bandaríkjamenn og Bretar líta þeim augum á TAK en Sameinuðu þjóðirnar, Kína og Indland gera það hins vegar ekki. Atlantshafsbandalagið, Bandaríkin og Evrópusambandið líta hins vegar á PKK sem hryðjuverkasamtök.

Erdogan forseti hélt fund með öryggisráði Tyrklands í gær þar sem aðgerðir gegn skæruliðahópum voru ræddar en ólga hefur verið í landinu undanfarin misseri sem náði hámarki með valdaránstilrauninni um miðjan júlí.

Angela Merkel kanslari Þýskalands hvatti í dag Erdogan Tyrklandsforseta til þess að sýnt stillingu og fylgja eftir lögum í viðbrögðum sínum við hryðjuverkunum en Erdogan hefur lagt til miklar breytingar á stjórnkerfi landsins.

 

Í gær bárust fregnir af því að forsetinn hafi lagt fram frumvarp um að embætti forsætisráðherra landsins yrði lagt niður og völdin færð til forsetans. Í drögum að lögunum kemur fram að forsetinn fá meðal annars vald til þess að tilnefna sex af tólf  æðstu embættismönnum í dómskerfi landsins og myndi hafa alhliða vald til þess að stjórna landinu með tilskipunum. Margir telja þó frumvarpið færa Tyrkland í burtu frá meginreglum lýðræðis og réttarríkis.


Tengdar fréttir

38 létust í Istanbúl

39 létust og minnst 166 særðust í sprengingunum tveimur fyrir utan knattspyrnuvöll í Istanbúl í Tyrklandi í gær

Frelsisfálkar lýsa yfir ábyrgð í Tyrklandi

Hópur herskárra Kúrda hefur lýst yfir ábyrgð á sprengjuárásinni í Istanbúl á laugardag. 38 fórust í sprengingunni, flestir voru lögreglumenn. Tugir eru særðir. Hópurinn er tengdur verkamannaflokki Kúrda sem er hryðjuverkasamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×