Innlent

Hælisleitandi ákærður fyrir nauðgun og dæmdur í farbann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn sætir farbanni til 3. janúar en hann er ákærður fyrir nauðgun.
Maðurinn sætir farbanni til 3. janúar en hann er ákærður fyrir nauðgun. vísir/gva
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í liðinni viku um að hælisleitandi sem ákærður er fyrir nauðgun skuli sæta farbanni til 3. janúar næstkomandi.

Í úrskurði héraðsdóms er vitnað til greinargerðar héraðssaksóknara sem þann 2. desember gaf út ákæru á hendur manninum fyrir nauðgun sem á að hafa átt sér stað á gistiheimili þann 11. mars síðastliðinn.

Brotaþoli í málinu fór á neyðarmóttöku Landspítala þann 13. mars í fylgt lögreglu „eftir að lögregla hefði haft afskipti af henni í miðbæ Reykjavíkur vegna slæms ástands og uppnáms hennar. Við rannsókn málsins hafi ákærði verið yfirheyrður þrisvar sinnum og hafi hann neitað sök og sagt að hann hefði ekki haft kynferðislegt samneyti við brotaþola. Meðal rannsóknargagna málsins séu niðurstöður DNA-rannsóknar þar sem fram komi að DNA-snið úr sýni af nærbuxum brotaþola sé hið sama og DNA-snið ákærða. Þá liggi fyrir samskipti brotaþola og ákærða af Facebook fyrir og eftir umræddan dag, sem og framburðir vitna,“ eins og segir í úrskurði héraðsdóms.

Maðurinn sem ákærður er í málinu er eins og áður segir hælisleitandi hér á landi og dvelur nú á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Útlendingastofnun hefur synjað honum um hæli og er mál hans nú til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála.

„Það sé mat héraðssaksóknara að kærði kunni að reyna að komast úr landi og telji héraðssaksóknari nauðsynlegt að tryggja nærveru hans á meðan sakamálið á hendur honum sé til meðferðar fyrir dómstólum.“

Á þetta mat saksóknara féllust bæði héraðsdómur og Hæstiréttur og verður hann því í farmbanni á meðan mál hans er til meðferðar hjá dómstólum, en þó ekki lengur en til 3. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×