Innlent

Aftur lán í óláni í Laufáskirkju: Skólabílstjórinn í sveitinni átti fyrir tilviljun leið framhjá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Óvíst er með hátíðarhald í kirkjunni um jólin en alla jafna er hátíðarmessa í Laufáskirkju á annan dag jóla.
Óvíst er með hátíðarhald í kirkjunni um jólin en alla jafna er hátíðarmessa í Laufáskirkju á annan dag jóla. Mynd/Helga Kvam
Betur fór en á horfðist þegar eldur kviknaði í Laufáskirkju í Lauásprestakalli í Eyjafirði á þriðja tímanum í dag. Boð bárust sóknarprestinum Sr. Bolla Pétri Bollasyni frá Öryggismiðstöðinni en Bolli býr á Laufási, við hlið kirkjunnar.

Svo vel vildi til að Anna Bára Bergvinsdóttir, skólabílstjóri og gjaldkeri sóknarnefndar, átti leið hjá á sama tíma og var með lítið slökkvitæki í bílnum. Tókst henni að slökkva eldinn áður en slökkvilið kom á vettvang.

„Þetta er búið að vera þvílíkt lán í óláni,“ segir Bolli í samtali við Vísi. Fyrr á árinu féll snjóflóð á kirkjuna og grafreitinn sem braut legsteina en kirkjan stóð flóðið af sér. Bolli segir að eldurinn í dag hafi kviknað út frá straumbreyti fyrir leiðaljós og kominn hafi verið eldur í horni kirkjunnar. Mikill svartur reykur hafi myndast sem hafi gert það að verkum að erfitt var að komast að slökkvitækinu sem var inni í kirkjunni.

Hefði fuðrað upp mínútu síðar

Slökkviliðsmenn vinna nú að reykræstingu í kirkjunni sem er nýorðin 150 ára og allt timbrið upprunalegt. Stutt er síðan öryggiskerfi var tengt kirkjunni sem skipti sköpum í dag að fólk varð eldsins vart. 

„Við verðum að þakka fyrir þetta um jólin,“ segir Bolli.

Slökkviliðið ætlaði að senda mikinn mannskap á vettvang áður en þær upplýsingar bárust að búið væri að slökkva eldinn. 

„Það er snarræði þeirra (innsk: Bolla og Önnu Báru) að þakka að ekki fór verr. Mínútu seinna hefði þetta allt fuðrað upp,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×