Erlent

Frelsisfálkar lýsa yfir ábyrgð í Tyrklandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/EPA
Frelsisfálkar Kúrdistans (TAK) lýstu í gær yfir ábyrgð á sprengjuárás sem felldi 38 fyrir utan Vodafone-leikvanginn í tyrknesku borginni Istanbúl. Yfirlýsingin var birt á vefsíðu TAK.

Bílsprengja sprakk fyrir utan Vodafone-leikvanginn, heimavöll knattspyrnuliðsins Besiktas, á laugardagskvöldið, tveimur klukkutímum eftir að flautað hafði verið til leiksloka í leik liðsins við Bursaspor.

Bílsprengjan skall á lögreglubíl en þrjátíu hinna föllnu voru lögreglumenn. Þá liggja tugir enn á spítala, sumir hverjir á gjörgæslu. Alls særðust 155 í árásunum tveimur en nærri vettvangi sprengingarinnar sprengdi árásarmaður sig einnig í loft upp.

TAK lýsti einnig ábyrgð á öðrum árásum í Tyrklandi á árinu.

Aðstoðarforsætisráðherrann Numan Kurtulmus sagði í gær að fyrstu stig rannsóknar málsins bentu til þess að Verkamannaflokkur Kúrda (PKK) bæri ábyrgð á árásunum. Sagði hann einnig að allt að fjögur hundruð kíló sprengiefnis hefðu verið notuð á laugardagskvöld.

Tengsl TAK og PKK eru óljós, en hóparnir eiga það sameiginlegt að vera álitnir hryðjuverkasamtök. Bandaríkjamenn og Bretar líta þeim augum á TAK en það gera Sameinuðu þjóðirnar, Kína, Indland og fleiri ekki. Fleiri eru á því að PKK séu hryðjuverkasamtök en þar má nefna Atlantshafsbandalagið, Bandaríkin og Evrópusambandið.

Sjálfir líta Tyrkir á TAK sem hluta af PKK en lögreglan í Tyrklandi hefur TAK ekki á skrá sem hryðjuverkasamtök í landinu af þeirri ástæðu.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tjáði sig um árásina við fjölmiðla í gær. „Tyrkland mun berjast gegn plágu hryðjuverka allt til enda. Ég lofa því að árásarmennirnir munu gjalda fyrir árásirnar,“ sagði forsetinn.

Erdogan lýsti því einnig yfir að gærdagurinn yrði dagur þjóðarsorgar og því að sprengingarnar hefðu verið til þess gerðar að hámarka mannfall.

Samkvæmt því sem Süleyman Soylu, innanríkisráðherra Tyrkja, sagði á blaðamannafundi í gær, voru þrettán handteknir í tengslum við sprengingarnar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×