Lífið

Líf og fjör á Lifandi laugardegi

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Gestir geta meðal annars gripið sér krít í hönd í miðbæ Hafnarfjarðar í dag.
Gestir geta meðal annars gripið sér krít í hönd í miðbæ Hafnarfjarðar í dag. Vísir/Ernir
Það verður líf og fjör í miðbæ Hafnarfjarðar á Lifandi laugardegi sem fer fram með pompi og prakt í dag.

Nóg verður um að vera en viðburðurinn fór einnig fram síðasta sumar við góðar undirtektir og því ekkert því til fyrirstöðu að endurtaka leikinn.

Dagskráin er fjölbreytt og hentar allri fjölskyldunni en meðal þess sem um verður að vera er götumarkaður, skottsala, blómamarkaður, PopUp Yoga og Vegan-festival á Thorsplani.

„Það er alveg frábært að fá Vegan-hátíðina inn í þetta og alla þá viðburði sem þar verða. Það verða rapparar, tónlistaratriði og grillað,“ segir Ása Sigríður Þórisdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Hafnarfjarðar, en auk Markaðsstofunnar eru það eigendur og rekstraraðilar verslana í miðbæ bæjarins sem standa að viðburðinum en Ása segir að töluvert hafi bæst í flóru kaffi-, veitingahúsa og verslana í miðbænum undanfarin ár og það skili sér í auknum áhuga gesta. „Við finnum fyrir auknum áhuga á Hafnarfirði og því að fleiri gestir sækja bæinn heim.“

Fyrir yngstu gestina verða leiktæki á svæðinu og krítar, blöðrur og sápukúlur í boði. Því ættu allir að geta fundið sér eitthvað til hæfis.

Ása segir aðstandendur viðburðarins búast við lífi og fjöri í miðbænum í dag. Dagskráin hefst klukkan 12.00 í dag. PopUp Yoga hefst klukkan 13.00 í Hellisgerði og Vegan-festivalið hefst klukkan 14.00.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×