Erlent

Koike fyrsta konan til að verða kjörin ríkisstjóri Tokýó

Atli Ísleifsson skrifar
Yuriko Koike, fyrrverandi varnarmálaráðherra Japans.
Yuriko Koike, fyrrverandi varnarmálaráðherra Japans. Vísir/AFP
Yuriko Koike, fyrrverandi varnarmálaráðherra Japans, var í dag kjörin ríkisstjóri japönsku höfuðborgarinnar Tókýó. Koike verður fyrsta konan til að gegna embættinu.

Japanskir fjölmiðlar birtu útgönguspár sínar um leið og kjörstöðum var lokað og benda þær til sigurs Koike.

Eitt af helstu verkefnum nýs ríkisstjóra Tókýó verður að takast á við þau fjárhagsvandræði sem hafa einkennt undirbúning Ólympíuleikanna sem fram fara í Tókýó að fjórum árum liðnum.

Hneykslismál tengd leikunum eru ástæða afsagna síðustu tveggja ríkisstjóra, en alls sóttist 21 frambjóðandi eftir því að stjórna Tókýó og fjölda annarra nágrannaborga sem heyra undir stjórnsýslueininguna.

Í frétt BBC segir að boðað hafi verið til kjörsins eftir að fyrrverandi ríkisstjórinn, Yoichi Masuzoe, sagði af sér í kjölfar ásakana um að hann hafi nýtt opinbera sjóði til að fjármagna einkaneyslu sína.

Koike mun sem ríkisstjóri ferðast til Ríó de Janeiro og taka við Ólympíufánanum úr hendi borgarstjóra Ríó á lokahátíð Ólympíuleikanna sem hefjast þann 5. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×