Innlent

„Við erum ekki farin að sjá botninn“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Á milli fjörutíu og fimmtíu manns komu að handtökunum á þriðjudag en þær snúa að rannsókn á stórfelldum skattalaga- og bókhaldsbrotum hjá nokkrum verktakafyrirtækjum í byggingariðnaðinum. Leikur grunur á að fleiri hundruð milljónum króna hafi verið skotið undan.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í viðtali við Vísi í dag að vísbendingar séu um aukna skipulagða brotastarfsemi á sviði skattalaga hér á landi. Handtökurnar á þriðjudag sé aðeins eitt mál af um það bil tuttugu sem embættið hefur haft til rannsóknar í byggingariðnaðinum.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, segir stöðuna alvarlega og að slík mál séu í algjörum forgangi hjá stéttarfélögum þessa stundina.

„Við höfum haft mjög vaxandi áhyggjur af byggingariðnaðinum og ferðaþjónustunni. Hún hefur aukist alveg gríðarlega og við erum að sjá í okkar tölfræði alveg tuttugu prósent aukningu á milli ára í þessum greinum. Það er misjafn sauður i mörgu fé og við höfum orðið vör við það að við þurfum að þétta mjög eftirlitið okkar gagnvart þessum fyrirtækjum, og við erum að gera það.“

Drífa segir ljóst að fleiri mál eigi eftir að koma fram.

„Við erum ekki komin að botninum ennþá. Við erum ekki farin að sjá á botninn þannig við vitum ekki umfangið en það er meira en við erum að ná yfir. Við búum okkur undir að þetta verði stór verkefni núna á næstu árum að aðstoða það fólk sem kemur til stéttarfélaganna og eins að virkja eftirlit til að hafa uppi á þeim sem eru ekki að standa sig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×