Sport

Caeleb Dressel jafnaði HM-met Michael Phelps

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caeleb Dressel er í þokkalegasta formi.
Caeleb Dressel er í þokkalegasta formi. Vísir/Getty
Caeleb Dressel er nýjasta bandaríska súperstjarnan í sundheiminum en hann fór á kostum á HM í sundi í Búdapest sem lauk í dag.

Hinn tvítugi Caeleb Dressel jafnaði í dag tíu ára gamalt heimsmeistaramótsmet Michael Phelps á lokadeginum þegar hann vann sín sjöundu gullverðlaun á mótinu.

Sjöunda gullið hans kom í boðsundi þar sem hann synti fyrsta sprettinn 4 x 100 metra fjórsundi. Þetta voru fjórðu gullverðlaun Dressel í boðsundum á heimsmeistaramótinu.

Dressel vann þrjár einstaklingsgreinar en hann er gríðarlega sterkur í hröðustu greinunum. Dressel vann bæði 50 og 100 metra skriðsund sem og 100 metra flugsund.

Dressel á tvö Ólympíugull síðan í Ríó 2016  en hann var þá meðlimur í tveimur gullsveitum Bandaríkjanna.

„Ég hef aldrei upplifað svona áður þannig að ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég ætla að taka mér frí í Evrópu, fara til Póllands og Skotlands, og slappa af. Þetta voru átta skemmtilegustu dagar lífs míns. Það var æðislegt að fá að gera það sem ég elska að gera,“ sagði Caeleb Dressel.

Caeleb Dressel er Florida Gator eins og Hrafnhildur Lúthersdóttir en þau stunduðu bæði háskólanám hjá University of Florida.

Michael Phelps setti metið á HM í Melbourne 2007. Hann vann þá fimm einstaklingsgreinar og var í tveimur gullsveitum Bandaríkjanna.  Einstaklings Phelps fyrir tíu árum komu í 100 og 200 metra flugsundi, 200 og 400 metra fjórsundi og svo í 200 metra skriðsundi.

Caeleb Dressel á verðlaunapallinum.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×