Innlent

Hlaupið svo gott sem búið

Múlakvísl í gær.
Múlakvísl í gær. vísir/jóhann k. jóhannsson
Jökulhlaupið í Múlakvísl er svo til búið að sögn sérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Rafleiðni í ánni er að nálgast eðlilegt horf og rólegt hefur verið í Mýrdalsjökli en færri en tíu jarðskjálftar hafa mælst undir Kötluöskjunni frá því í gærkvöldi.

Viðbúnaðarstig vegna hugsanlegs eldgoss var hækkað í gult vegna jökulhlaupsins og er það enn í gildi. Veðurstofan og almannavarnir endurmeta stöðuna á morgun um hvort viðbúnaðarstig verði lækkað aftur en þekkt er að jökulhlaup sem gengið hafa niður geti tekið sig um aftur.

Þá hefur jarðskjálftavirkni undir Fagradalsfjalli á Reykjanesi minnkað mikið en nokkrir stórir jarðskjálftar urðu þar í síðustu viku.

Tólf jarðskjálftar voru á svæðinu í nótt en enginn þeirra sem talist geti til tíðinda.

Uppfært klukkan 11.30

Hlaupið er yfirstaðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.

„Jökulhlaupið í Múlakvísl á Mýrdalssandi er yfirstaðið. Rafleiðni nálgast smá saman eðlileg mörk en fólk er hvatt til þess að sýna aðgát við upptök árinnar vegna mögulegs gasútstreymis," segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.




Tengdar fréttir

Ferðamenn rólegir yfir jökulhlaupinu

Lögregla og Vegagerð vakta enn svæðið í kringum Múlakvísl á Mýrdalssandi þar sem jökulhlaup náði hámarki sínu um klukkan tíu í morgun.

Ekki merki um gosóróa

Ekki eru merki um gosóróa í Kötlu, að sögn Gunnars B. Guðmundssonar, sérfræðings á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands.

Flóðið að ná hámarki

Fólk er varað við því að vera í nágrenni árinnar vegna gasmengunar, áin er dökk og mikill fnykur er frá henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×