Innlent

Aftur gerðar athugasemdir við afstöðu ráðuneytisins

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ríkisendurskoðun hvetur bæði forsætis- og fjármálaráðuneytið til þess að grípa til úrbóta.
Ríkisendurskoðun hvetur bæði forsætis- og fjármálaráðuneytið til þess að grípa til úrbóta. vísir/stefán
Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við afstöðu forsætisráðuneytisins um að setja ekki verklagsreglur um styrkveitingar í samræmi við almennar reglur stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti. Lögum samkvæmt hafa ráðherrar heimild til að veita tilfallandi styrki til verkefna á þeim málasviðum sem undir þá heyra.

Ríkisendurskoðun gagnrýndi árið 2014 hvernig ráðuneytið stóð að úthlutun styrkja til atvinnuskapandi minjaverndarverkefna í árslok 2013. Var ráðuneytið á sama tíma hvatt til þess að setja sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar.

Stofnunin segist í tilkynningu ekki ætla að ítreka ábendingar sínar vegna fyrrnefndra úthlutana enda hafi þeir fjárlagaliðir sem þá voru til umfjöllunar verið aflagðir og verkefnum sem þeir tóku til sé lokið. Þá kveði ný lög um opinber fjármál skýrar á um styrkveitingar ráðherra en áður.

Jafnframt vekur stofnunin athygli á því að samkvæmt lögunum skuli fjármála- og efnahagsráðherra setja reglugerð um undirbúning, gerð og eftirlit með styrkjunum. Þær reglur hafi ekki verið settar og er ráðuneytið hvatt til að bæta úr því sem fyrst.


Tengdar fréttir

Óttast hvatvísar ráðstafanir ráðherra

Ráðherra gæti, með víðtækri heimild í nýjum lögum um opinber fjármál til þess að færa til fjármuni, kippt í burtu rekstrargrundvelli stofnana, segja Hagsmunasamtök heimilanna. Spurningarmerki sett við heimildirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×