Innlent

Hvers kyns mismunun varði við lög

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um jafnlaunavottun á Alþingi.
Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um jafnlaunavottun á Alþingi. vísir/anton brink
Frumvarp félagsmálaráðherra um jafnlaunavottorð var lagt fram á Alþingi í dag. Kveðið er á um að mismunun á vinnumarkaði verði óheimil en þau fyrirtæki eða stofnanir sem brjóta þessi nýju lög geta átt yfir höfði sér sektir og eru skaðabótaskyld.

Lagt er til að lögin taki gildi um næstu áramót en að ákvæði er varðar bann við mismunandi meðferð á vinnumarkaði á grundvelli aldurs öðlist ekki gildi fyrr en 1. júlí 2019.

Markmið frumvarpsins er að tryggja jafna meðferð á vinnumarkaði hérlendis, hvort sem er á almennum vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera. Kveðið er á um að mismunun, hvort heldur bein eða óbein, vegna kynþáttar þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar eða kynvitundar verði óheimil.

Þá er sérstaklega fjallað um bann við mismunun í starfi, við ráðningu í starf og um bann við mismunun varðandi laun og önnur kjör.

Atvinnurekendum, stéttarfélögum og samtökum þeirra verður með lögunum gert að vinna markvisst að meðferð á vinnumarkaði. Þeir sem brjóta gegn lögunum eru skaðabótaskyldir vegna fjártjóns og miska. Þá geta brot gegn lögunum varðað sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Frumvarpið í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×