Erlent

Minntust áhættuleikkonunnar sem lést á tökustað Deadpool 2

Kristín Ólafsdóttir skrifar
SJ Harris var lýst sem frumkvöðli innan mótorhjólasportsins í Bandaríkjunum.
SJ Harris var lýst sem frumkvöðli innan mótorhjólasportsins í Bandaríkjunum. Skjáskot/Instagram
Áhættuleikkonan, sem lést í mótorhjólaslysi við tökur á kvikmyndinni Deadpool 2 í gær, hét SJ Harris en henni hafði verið lýst sem frumkvöðli í mótorhjólaakstri í Bandaríkjunum. Leikarar í myndinni, Ryan Reynolds og Josh Brolin, voru á meðal þeirra sem minntust hennar á samfélagsmiðlum í gær. BBC greinir frá.

Vitni að slysinu sögðu Harris hafa misst stjórn á mótorhjólinu, farið yfir vegkant og lent harkalega á nærliggjandi byggingu.

Harris var lýst sem frumkvöðli á sínu sviði og var þekkt fyrir að hvetja konur og svarta í Bandaríkjunum til að keppa í mótorhjólaakstri.

„Ég er allt sem fólk sá aldrei í þessari íþrótt,“ sagði Harris í viðtali við tímaritið Black Girls Ride árið 2015 en þar var henni hampað sem leiðtoga í mótorhjólasporti, á fleiri en einn veg.

Kanadíski leikarinn Ryan Reynolds, sem fer með titilhlutverk Deadpool 2, sagðist „miður sín“ vegna andláts Harris og vottaði aðstandendum hennar samúð sína. Þá minntist leikarinn Josh Brolin hennar einnig en hann leikur Nathan Summers eða Cable í kvikmyndinni.

Harris er sögð hafa æft áhættuatriðið fjölmörgum sinnum áður en slysið varð en framleiðslu á kvikmyndinni hefur verið hætt tímabundið. Deadpool 2 var fyrsta verkefni Harris sem áhættuleikkona.

A post shared by Josh Brolin (@joshbrolin) on


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×