Innlent

Rottumítlar hrekja par úr íbúð í miðbænum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sæmundur Heiðar Emilsson þurfti að flytja úr leiguíbúð sinni við Laugaveg vegna rottumítilssmits.
Sæmundur Heiðar Emilsson þurfti að flytja úr leiguíbúð sinni við Laugaveg vegna rottumítilssmits. Skjáskot/RÚV
Fjölskylda í miðbæ Reykjavíkur þurfti að flytja úr leiguíbúð sinni vegna rottumítla. Mítlarnir bitu þau og lögðust á búslóðina sem er líklega ónýt.

Sæmundur Heiðar Emilsson flutti ásamt kærustu sinni, Ingu Rós Sigurðardóttur, og 4 ára syni hennar inn í íbúð við Laugaveg á síðasta ári. Fyrir um sex vikum fóru þau að taka eftir einkennilegum hljóðum innan úr veggjum. RÚV greinir frá.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að rottur héldu til í lögnum hússins og báru með sér rottumítla, sem bitu Sæmund og Ingu. Þeir nærast aðallega á blóði nagdýra en geta einnig lifað á fólki.

Lent á götunni

Nokkru síðar fór parið að finna fyrir útbrotum og eftir að Sæmundur fann tvær pöddur á andlitinu á sér leituðu þau til læknis. Þar fengu þau staðfest að um bit rottumítla væri að ræða.

Fjölskyldan er nú heimilislaus en Inga Rós segir frá stöðu þeirra í DV í dag. Íbúðin er talin óíbúðarhæf og Sæmundur og Inga hafa því þurft að fá inni hjá vinum og ættingjum. Þau vantar sárlega húsnæði. Búslóð þeirra er auk þess ónýt en meindýraeyðir hefur mælt með að henni verði allri eytt svo ekki breiðist út faraldur.

Þetta er í fyrsta skipti sem rottumítill greinist á Íslandi síðan árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×