Innlent

Færumst nær markmiðum söfnunar en þjónustan aðalatriði segir Benedikt

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, kynnir áætlunina í morgun.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, kynnir áætlunina í morgun. vísir/anton brink
Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála verða stórlega aukin samkvæmt nýrri ríkisfjármáláætlun til fimm ára sem kynnt var í morgun. Útgjöldin eru hins vegar hvergi nálægt markmiðum áskorunar sem 86.500 Íslendingar skrifuðu undir.

Útgjöld ríkisins til heilbrigðismála verða stórlega aukin samkvæmt nýrri ríkisfjármáláætlun til fimm ára sem kynnt var í morgun. Kostnaðarþátttaka sjúklinga verður lækkuð og lokið verður við að byggja meðferðarkjarna nýs Landspítala á tímabilinu og biðlistar verða styttir. Skattkerfið verður einfaldað og skuldir ríkisins greiddar hratt niður.

Nýr Landspítali verður byggður á tímabilinu. Biðlistar verða styttir. Nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga tekur gildi og kostnaður sjúklinga lækkar. Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra segir að uppsafnaður raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála verði 22 prósent í lok tímabilsins ef áætlunin gengur eftir.

„Við náum því í lok tímabilsins en erum að bæta í strax á næsta ári. Lyfjakostnaður er að aukast, við þurfum að huga að umönnun við geðsjúka, við þurfum að byggja þennan spítala sem við ætlum að klára á tímabilinu. Við sjáum þetta gerast jafnt og þétt yfir kjörtímabilið,“ segir Benedikt.

Um 86.500 Íslendingar skrifuðu undir áskorun inni Endurreisn.is um að um að útgjöld ríkisins heilbrigðismála færi í 11 prósent af landsframleiðslu.

Við færumst nær þessu markmiði auðvitað en ég hef aldrei verið trúaður á að eitthvað hlutfall af landsframleiðslu sé réttur mælikvarði heldur þjónustan við almenning. Þjónustan við þá sem þurfa að leggjast á sjúkrahús eða fara á heilsugæslu er það sem er mikilvægast og það erum við að bæta,“ segir Benedikt. 

Gangi áætlunin eftir verður búið að byggja meðferðarkjarna nýs Landspítala við Hringbraut í lok árs 2022. Benedikt segir að framkvæmdir verði komnar á fullan skrið strax á næsta ári. 

Stefnt er að áframhaldandi skuldalækkun ríkisins. Verða þær komnar undir 30 prósent af landsframleiðslu í lok þessa árs sem er mikill viðsnúningur frá árunum eftir hrunið en skuldahlutfallið fór hæst í 100 prósent af landsframleiðslu árið 2011.

Stefnt er að afgangi á rekstri ríkissjóðs sem nemur einu til einu komma sex prósent af landsframleiðslu á tímabilinu 2018-2022. Benedikt sagði í morgun að það væri markmið ríkisstjórnarinnar að skapa umgjörð og svigrúm fyrir vaxtalækkanir með ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum en það er auðvitað í verkahring Seðlabankans að ákveða vextina og er hann sjálfstæður að lögum. Bent hefur verið á að ef ríkissjóður myndi sýna aukið aðhald og skila meiri afgangi þá væri Seðlabankinn í betur stakk búinn að lækka vextina enda væri þá Seðlabankinn ekki einn í þeirri stöðu að hafa taumhald á þenslu í hagkerfinu.

„Þessi afgangur á ríkissjóði, þarna erum við að feta einstigið. Við viljum fara í margar brýnar framkvæmdir. Við viljum byggja upp innviði, við viljum byggja upp betra heilbrigðiskerfi og betra almannatryggingakerfi. Á sama tíma viljum við auka tekjuafgang ríkissjóðs til þess að vinna á móti spennu (í hagkerfinu innsk.blm). Við getum ekki sagt, við viljum hafa 5 prósent afgang eða einhvern afgang sem mér dytti í hug. Við verðum að huga að því líka að það er hlutverk ríkisins að þjóna almenningi.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×