Erlent

Helmut Kohl jarðsunginn í dag

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ýmsir þjóðarleiðtogar vottuðu Helmut Kohl virðingu sína í dag.
Ýmsir þjóðarleiðtogar vottuðu Helmut Kohl virðingu sína í dag.
Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari Þýskalands, var jarðsunginn í Strassbourg í Frakklandi í dag. Kohl lést þann 16. júní síðastliðinn, 87 ára að aldri.

Kohl er einn dáðasti stjórnmálamaður þýskrar sögu. Hann varð kanslari Vestur-Þýskalands árið 1982 og varð síðan fyrsti kanslari sameinaðs Þýskalands og gegndi því embætti frá árinu 1990 til 1998.

Ýmsir þjóðarleiðtogar vottuðu honum virðingu sína í dag. Þeirra á meðal var Bill Clinton, fyrrverandi bandaríkjaforseti, Emmanuel Macron, forseti Frakklands, Dmitry Medvedev forsætisráðherra Rússlands, Felipe González forsætisráðherra Spánar og Angela Merkel, núverandi kanslari Þýskalands.

„Nú er það undir okkur komið að varðveita arfleið þína. Ég lúti höfði mínu fyrir þér og þinni minningu af þakklæti og auðmýkt,“ sagði Merkel í ræðu sinni við athöfnina í dag.

Evrópuþingið í Strassbourg hafði umsjón með útförinni og er þetta í fyrsta sinn sem Evrópusambandið kemur að útför þjóðarleiðtoga með þessum hætti. Kista Kohl mun nú ferðast meðfram Rínará til bæjarins Speyer þar sem hann verður grafinn.

Synir Kohl voru ekki viðstaddir athöfnina í dag, en þeir hafa undanfarið átt í deilum við Maike Kohl-Richter, seinni eiginkonu föður síns. Kohl-Richter er 30 árum yngri en Kohl og eftir að þau giftu sig einangraði kanslarinn sig frá aðstandendum og vinum og sást sjaldan opinberlega.

 


Tengdar fréttir

Helmut Kohl er látinn

Helmut Kohl, fyrrverandi kanslari Þýskalands, er látinn. Hann var 87 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×