Innlent

Þrjú og hálft ár fyrir innflutning á kókaíni

Jakob Bjarnar skrifar
Í þremur sýnum reyndist efnið vera 69% sem samsvarar 77% af kókaínklóríði en í einu sýni var styrkurinn 71% sem samsvarar 80% af kókaínklóríði.
Í þremur sýnum reyndist efnið vera 69% sem samsvarar 77% af kókaínklóríði en í einu sýni var styrkurinn 71% sem samsvarar 80% af kókaínklóríði.
Filipe Raphael Szymoszche, brasilískur ríkisborgari, var dæmdur til fangelsisvistar í þrjú ár og sex mánuði. Auk, þess er honum gert að greiða þrjár milljónir í sakakostnað, en þar af eru 2,3 milljónir til verjanda hans Unnars Steins Bjarndal. Dómurinn féll í héraðsdómi Reykjaness og felldi Sandra Baldvinsdóttir dóminn.

Óvenju sterkt efni

Szymoszche kom til landsins 22. mars 2017 með flugi frá Hollandi og fundust í farangri hans fjórir brúsar; munnskol, shampó og krem en við nánari athugun reyndust brúsarnir innihalda 1.950 ml af kókaíni sem hafði 69% styrkleika og telur dómurinn efnið ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að um „mikið magn hættulegra fíkniefna var að ræða“.

Efnið er, samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, óvenju sterkt. Í þremur sýnum reyndist efnið vera 69% sem samsvarar 77% af kókaínklóríði en „í einu sýni var styrkurinn 71% sem samsvarar 80% af kókaínklóríði,“ eins og segir í dómsorði. Neyslustyrkur kókaíns hér á landi hefur ekki verið rannsakaður sérstaklega en neyslustyrkleiki kókaíns í Danmörku hefur verið að miðgildi 37% árið 2015, „en mikill breytileiki hafi verið í neyslustyrkleika frá aldamótum, allt frá 16% árið 2007 upp í 48% árið 2001. Miðað við 37% neyslustyrkleika væri hægt að búa til úr efninu sem fannst í farangri ákærða 4,5 kg af efni sem væri 37% að styrk.“

Sagðist ætla að taka myndir og fara á snjóbretti

Szymoszche hélt því fram að hann hafi ekki vitað um efnin og að þeim hafi verið komið fyrir í tösku hans. Hann sagðist kominn til Íslands sem ferðamaður en hann hefði aldrei séð snjó og ætlaði að reyna að fara á snjóbretti. Einnig hafi hann ætlað í Bláa lónið. Hann hafi ætlað að dvelja hér á landi í tíu daga og var að sögn ljósmyndari sem vildi meðal annars ljósmynda Norðurljósin.

Dómara þótti framburður Szymoszche ekki trúverðugur. Fyrir liggur að hann kom til landsins með skömmum fyrirvara og var um að ræða langt og dýrt ferðalag. Ekki verður ráðið af farangri ákærða að hann hafi komið hingað til lands til að fara á snjóbretti eins og hann heldur fram. „Þá leiddi rannsókn lögreglu á farsíma ákærða í ljós að hann hafði ekki skoðað upplýsingar um skoðunarferðir á Íslandi, en hann hefur haldið því fram að hann hafi gert það. Ákærði hélt því fram í fyrstu að hann væri atvinnuljósmyndari en viðurkenndi svo að það væri ekki rétt. Er framburður ákærða um að hann hafi komið hingað til lands sem ferðamaður ótrúverðugur.“ Þá fundust efnisleifar af kókaíni á höndum ákærða sem gekk í berhögg við þann framburð Brasilíumannsins að hann hafi ekkert vitað af efnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×