Verðlaunaafhendingin mun fara fram miðvikudaginn 1. nóvember 2017 í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsinki. Þá tilkynntu Skam stjörnurnar Tarjei Sandvik Moe (Isak) og Iman Meskini (Sana) um tilnefningarnar nú fyrir stuttu.
Auk Hjartasteins er kvikmyndin Little Wing frá Finnlandi tilnefnd og er hún í leikstjórn Selmu Vilhunen. Kvikmyndin Parents í leikstjórn Christian Tafdrup er tilnefnd fyrir hönd Danmerkur auk kvikmyndarinnar Hunting Flies í leikstjórn Izer Aliu frá Noregi. Þá er kvikmyndin Sami Blood í leikstjórn Amöndu Kernell frá Svíðþjóð einnig tilnefnd.
Bíó Paradís mun standa fyrir kvikmyndaveislu dagana 7. til 13 september þar sem myndirnar verða sýndar og munu sérstakir gestir í tilefni þess koma til landsins og vera viðstaddir sýningarnar.
Allar myndir sem eru tilnefndar eru jafnframt fyrstu kvikmyndir leikstjóranna í fullri lengd. Sigurvegarinn fær ekki einungis heiðurinn á að hafa hlotið verðlaunin heldur fær hann einnig fjárhæð að upphæð 350 þúsund dönskum krónum eða tæplega 6 milljónir íslenskra króna. Upphæðin skiptist jafnt milli handritshöfundar, leikstjóra og framleiðanda enda skipta þessir þrír þættir miklu máli í að viðhalda kvikmyndagerð sem listgrein.
Markmið kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og vekja athygli á verkum sem skarað hafa fram úr á sviði lista og umhverfismála auk þess að auka sýnileika norræns samstarfs.
Stiklu úr myndinni Hjartasteinn má sjá hér að neðan.