Handtaka tveggja grænlenskra sjómanna vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur beindi kastljósi að Grænlandi og varð tilefni greinar sem Ingibjörg Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur birti á vef Kalak, vinafélags Grænlands og Íslands, en hún er búsett í bænum Sisimiut, norðarlega á vesturströnd Grænlands.
„Í starfi mínu sem hjúkrunarfræðingur hitti ég reglulega konur sem hafa verið lamdar og sem hefur verið nauðgað, af mönnum sínum, vinum, kunningjum eða ókunnugum. Það eru aldrei fluttar fréttir af ofbeldismálum,“ segir Ingibjörg í grein sinni.

„Kynbundið ofbeldi er einnig mjög algengt og morð eru tíðari hér en í samanburðarlöndunum,“ segir Naaja.
Hún segir að það sem einkenni ofbeldisbrot á Grænlandi sé að gerandinn og þolandinn séu oftast tengdir og þekkist.
„Tilviljanakennt ofbeldi eða morð hefur ekki verið algengt. Oftast þekkjast hlutaðeigandi og mjög oft hefur áfengi verið haft um hönd.“
En hvernig skýrir hún hærri tíðni ofbeldis gegn konum á Grænlandi?
„Kynbundið ofbeldi er mjög flókið vandamál en hér á Grænlandi skýrist það að hluta til af því að hér er mjög mikil áfengisneysla sem leiðir til slagsmála og ofbeldis gegn konum. Menningin gengur líka mjög út á karlmennsku og ofbeldi gegn konum er alþjóðlegt vandamál sem hvergi hefur verið leyst. En hér er það oft tengt áfengi,“ segir Naaja.

Ástandið hefur ekki skánað í seinni tíð, að sögn fangelsismálastjóra Grænlands:
„Það hefur því miður verið mjög algengt og viðvarandi. Það hefur ekki dregið úr því á neinum tímapunkti. Það er mjög algengt og viðvarandi,“ segir Naaja Nathanielsen.
Lokaorð Ingibjargar Björnsdóttur í grein sinni eru:
„Ég vona að hörmulegur dauðdagi ungrar konu á Íslandi geti haft það í för með sér að grænlensk þjóð taki á þöggun um ofbeldi og misnotkun og leyfi sér að tala opinskátt um hlutina og vinna þannig á þjóðarmeinum.“
