Innlent

Lars í Skavlan: „Ég fékk meira að segja þrjátíu atkvæði í forsetakosningunum“

atli ísleifsson skrifar
Lars Lagerbäck í þættinum í kvöld.
Lars Lagerbäck í þættinum í kvöld. Skavlan
Lars Lagerbäck, nýráðinn landsliðsþjálfari Noregs, var gestur í spjallþætti Fredrik Skavlan í norska og sænska ríkissjónvarpinu í kvöld.

Skavlan spurði Lars meðal annars út í gömul orð hans þar sem hann sagði að íslenska landsliðið yrði síðasta starfið áður en hann myndi hætta störfum sem þjálfari eftir langan feril. „Það eru eflaust margir reiðir Íslendingar að horfa á. Hvaða viltu segja við þá,“ spurði Skavlan.

„Mér finnst ekki að þeir eigi að vera svo reiðir,“ sagði Lars. „Þetta var alltaf hugsað þannig að Heimir Hallgrímsson, sem ég starfaði með, hann átti að taka við eftir þessi fjögur á hjá mér. Svo getur verið gott að gera breytingar eftir fjögur ár,“ sagði Lars.

Þá voru rifjuð upp orð Lars þess efnis að ef hann tæki að sér annað verkefni þá þyrfti það að vera virkilega spennandi. „Noregur?“ spurði Skavlan og salurinn skellti upp úr. Bent var á að Lars væri í 84. sæti heimslistans og kannski ekki mest spennandi verkefni í fótboltanum en Lars hélt andlitinu og gott betur en mikið var hlegið.

Áfram hélt Lars og sagðist mikið sakna Íslands. „Þetta var stórkostleg upplifun. Ég fékk meira að segja þrjátíu atkvæði í forsetakosningunum og ég er sérstaklega stoltur af því.“

Bauðstu þig fram?

„Ég var ekki með rétt vegabréf. Svo ég gat ekki boðið mig fram en tókst samt að fá þrjátíu atkvæði. Ég er mjög stoltur af þeim. Takk kærlega!“ sagði Lars við stuðningsmenn sína hér heima á Íslandi.

Undir lokin var Lars þakkað fyrir komuna og óskaði Skavlan honum góðs gengis.

„Við þurfum á því að halda,“ sagði Lars og áhorfendur skelltu upp úr á nýjan leik.

Sjá má viðtalið við Lars á vef SVT, en Lars mættir í salinn þegar um 45 mínútur eru liðnar af þættinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×