Erlent

Segjast hafa fundið elstu merki um líf á jörðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsóknin er kynnt í nýjasta hefti Nature.
Rannsóknin er kynnt í nýjasta hefti Nature.
Vísindamenn hafa fundið steingervinga í Kanada sem þeir segja að gætu verið elstu merki um lífverur á jörðinni.

Í frétt BBC segir að steingervingarnir hafi fundist í bergi í Quebec sem eru að minnsta kosti 3,77 milljarða ára, og allt að 4,28 milljarða ára, frá tíma „skömmu“ eftir myndun reikistjörnunnar og hundruð milljónir ára eldri en elstu merki lífs til þessa.

Niðurstöður rannsóknanna eru kynntar í nýjasta hefti Nature. Líkt og með allar fullyrðingar í þessa veru eru þær mjög umdeildar, en vísindamennirnir segjast geta svarað öllum þeim spurningum sem varpað er fram um málið.

Örverurnar sem um ræðir eru einungis um einn tíundi af þykkt mannshárs og innihalda talsvert magn járnglans, eða járnoxíðs.

Matthew Dodd, vísindamaður við University College London í Bretlandi, fullyrðir að uppgötvunin muni varpa nýju ljósi á uppruna lífs á jörðinni. „Uppgötvunin svarar stærstu spurningum sem mannkyn hefur spurt sjálft sig að – hvaðan komum við og af hverju erum við hér?“

Sjá má myndskeið um fundinn að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×