Erlent

Fundu höfuð Kim Wall

Kjartan Kjartansson skrifar
Madsen hefur borið því við að lúga kafbátsins hafi lent á höfði Wall og hún látist.
Madsen hefur borið því við að lúga kafbátsins hafi lent á höfði Wall og hún látist. Vísir/AFP

Kaupmannahafnarlögreglan segir að hún hafi fundið höfuð og fætur Kim Wall, sænsku blaðakonunnar, sem Peter Madsen er sakaður um að hafa myrt á kafbáti í sumar.

Á blaðamannafundi í morgun greindi lögreglan frá því að líkamshlutarnir og föt af Wall hefðu fundust við hólma í Køge-flóa suður af Kaupmannahöfn. Það voru kafarar frá danska sjóhernum sem fundu líkamsleifarnar.

Fötin og fæturnir fundust í poka og skömmu síðar fanst höfuðið grafið, að því er segir í frétt danska ríkisútvarpins DR.

Jens Møller Jensen, rannsóknarlögreglumaður, lýsti því að engir meiriháttar áverkar hafi verið á líkamshlutunum. Þannig bendi ekkert til þess að höfuðkúpa Wall hafi brotnað við högg. Þó sé ekki hægt að fullyrða það með vissu þar sem það hafi verið lengi undir vatni.

Madsen hefur haldið því fram að Wall hafi látist þegar hún fékk lúgu kafbátsins í höfuðið. Hann hefur viðurkennt að hafa „vanvirt“ lík hennar.

Búkur Wall fannst 21. ágúst, tíu dögum eftir að Wall hvarf eftir að hafa farið með Madsen út á kafbátnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×