Erlent

Madsen viðurkennir að hafa varpað líki Kim Wall fyrir borð

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Wall hefur verið leitað síðustu daga.
Kim Wall hefur verið leitað síðustu daga. Mynd/Samsett

Peter Madsen hefur viðurkennt að hafa varpað líki sænsku blaðakonunnar Kim Wall fyrir borð í kafbáti sínum. Slys hafi orðið um borð í bátnum sem hafi leitt til dauða hennar.

Sænskir og danskir fjölmiðlar greina frá þessu, en hinn danski Madsen á að hafa viðurkennt þetta í yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómara.

Madsen viðurkennir að lík Wall sé að finna á ótilgreindum stað á hafsbotni í Kögeflóa fyrir utan Kaupmannahöfn. SVT og DR greina frá þessu. 

Sjá einnig: Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen

Í yfirlýsingu frá Kaupmannahafnarlögreglunni segir kafbátnum hafi einungis verið siglt á dönsku hafsvæði, í syðsta hluta Eyrarsunds og í nyrðri og vestari hluta Kögeflóa. Kafarar hafa leitað að líki Wall á þessum slóðum síðustu daga og verður veit fram haldið í dag.

Hugðist skrifa um kafbátinn og siglinguna

Síðast sást til hinnar þrítugu Wall fimmtudaginn 10. ágúst en hún var með Madsen í kafbátnum í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna. Madsen var handtekinn á laugardaginn grunaður um manndráp af gáleysi eftir að kafbáturinn UC3 Nau­tilus sökk á föstudaginn. Hann var í kjölfarið úrskurðaður í 24 daga gæsluvarðhald, en neitaði til að byrja með að hafa orðið Wall að bana.

Sagðist hann hafa hleypt henni frá borði áður en báturinn sök. Báturinn var svo hífður upp af hafsbotni, en ekkert lík fannst þar um borð. Við rannsókn kom hins vegar í ljós að bátnum hafði verið sökkt af ásettu ráði.

„Við teljum að hann segi satt þegar hann segir að hún hafi látið lífið um borð í kafbátnum,“ segir Steen Hansen, fjölmiðlafulltrúi Kaupmannahafnarlögreglunnar, í samtali við TT. Hansen vill þó ekki upplýsa hvort Madsen segi slysið hafa átt sér stað á fimmtudeginum eða föstudeginum.


Tengdar fréttir

Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen er mjög þekktur maður í Danmörku. Sú staðreynd að hann sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs sænsku blaðakonunnar Kim Wall hefur vakið gríðarlega athygli í heimalandi hans og raunar um heim allan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×