Tíska og hönnun

Eru alltaf í klappliðinu og standa saman

Guðný Hrönn skrifar
Rakel Tómasdóttir, Andrea Magnúsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Aldís Pálsdóttir skipa teymið á bak við verkefnið.
Rakel Tómasdóttir, Andrea Magnúsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir og Aldís Pálsdóttir skipa teymið á bak við verkefnið. MYND/MAGNEA SINDRADÓTTIR
Hönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir, eigandi Trendnet.is, sameinuðu krafta sína og eru að senda frá sér boli með jákvæðum skilaboðum. Með verkefninu ætla þær að leggja Kvennaathvarfinu lið og vekja fólk til umhugsunar.

„Verkefnið er hugarfóstur okkar Elísabetar en við erum búnar að þekkjast lengi og búnar að ganga með hugmyndina í maganum í þó nokkurn tíma. Við Elísabet eigum það sameiginlegt að vera jákvæðar og drífandi, við þekkjum margar ótrúlega flottar konur og erum alltaf í klappliðinu. Okkur þykir miður að sjá hvað fólk leyfir sér stundum að segja um annað fólk, og þá sérstaklega á netinu. Við fullorðna fólkið megum ekki gleyma okkur og þurfum að muna að við erum fyrirmyndir komandi kynslóða. Hvernig viljum við hafa þetta? Okkar er valið og við veljum að standa saman, hjálpa hver annarri og styðja hver aðra,“ segir Andrea en bolirnir sem þær vinkonur eru að senda frá sér eru prýddir orðunum „Konur eru konum bestar“. Bolirnir eru svar við leiðinlegri tuggu sem flestir ættu að hafa heyrt: „Konur eru konum verstar.“

Spurð út í hvort hún heyri fólk oft fara með þessa neikvæðu setningu segir Andrea: „Ég ætla að velja að segja „nei“ við þessari spurningu af því að við erum nefnilega formlega hættar og búnar að breyta þessu í: „Konur eru konum bestar“.“

Vonast til að eiga nógu marga boli

Andrea og Elísabet sameinuðu krafta sína. „Fljótlega bættust í teymið snillingarnir Aldís Pálsdóttir og Rakel Tómasdóttir. Aldís er ljósmyndari og svo margt fleira og Rakel er grafískur hönnuður en hún hannaði letrið á bolnum. Við erum sérstaklega glaðar með það að geta státað okkur af Silktype, alíslensku letri.“

Andrea Magnúsdóttir hlakkar til að sjá fólk nota myllumerkið #Konurerukonumbestar.MYND/ALDÍS PÁLSDÓTTIR
Bolirnir fara í sölu á morgun, fimmtudaginn 22. júní. „Viðtökurnar hafa farið fram úr vonum okkar og við krossum bara putta og vonumst til að eiga bol handa öllum,“ segir Andrea sem er afar spennt fyrir verkefninu.

Allur ágóði sölunnar rennur til Kvennaathvarfsins. „Bolirnir verða seldir hjá í AndreA á Laugavegi og við opnum dyrnar klukkan 17.00 á morgun.“

Útkoma samstarfs þeirra Andreu, Elísabetar, Rakelar og Aldísar er hvítur stuttermabolur með svörtu letri, fyrir utan bókstafinn B, hann er rauður.

Og Andrea segir ekkert vandamál að stílisera hann á flottan hátt.

„Þessi bolur er svo flottur og ég þarf alveg að halda í mér að vera ekki í honum í dag, ég verð að spara hann fram á fimmtudag,“ segir hún og hlær. „Hann er flottur við gallabuxur, við víðar buxur, undir leðurjakka og kápur?… ég held að hann sé í alvörunni flottur við allt.“

Að lokum vill Andrea hvetja alla sem kaupa sér bol til styrktar Kvennaathvarfinu að birta mynd af sér í bolnum á samfélagsmiðlum og nota myllumerkið #Konurerukonumbestar. „Þannig getið þið dreift boðskapnum.“

Til gamans má geta að bolirnir koma í taupoka með sömu merkingu, í pokanum má einnig finna nýjasta tölublað af Glamour og rauðan varalit. Bolurinn kostar 5.900 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×