Þóra Helgadóttir Frost hefur gengið til liðs við GAMMA Capital Management í London og mun starfa sem efnahagsráðgjafi hjá félaginu. Þóra situr í fjármálaráði og er þar skipuð af Alþingi og starfaði áður sem hagfræðingur hjá breska Fjármálaráðinu (Office for Budget Responsibility). Þóra lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og MS-prófi í hagfræði frá University College London árið 2005.
Þóra bætist við hóp starfsmanna GAMMA í London. Höfuðstöðvar GAMMA er í Reykjavík en félagið rekur einnig skrifstofu í London og New York. Þá er áformað að opna skrifstofu í Zürich í Sviss síðar á þessu ári.
„Það er ánægjulegt að fá Þóru, með alla sína þekkingu og reynslu, til starfa fyrir GAMMA í London. Starfsemi GAMMA hefur vaxið jafnt og þétt í borginni frá því að við opnuðum skrifstofu árið 2015. GAMMA sinnir víðtækum ráðgjafastörfum fyrir bæði innlenda og erlenda fjárfesta og hefur á síðustu árum gefið út ítarlegar rannsóknarskýrslur um efnahagsmál og önnur samfélagsmál, bæði á íslensku og ensku. Reynsla Þóru mun nýtast vel í störfum GAMMA á næstu misserum, viðskiptavinum GAMMA til hagsbóta,“ segir Gísli Hauksson, stjórnarformaður GAMMA og forstjóri GAMMA í London.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.
Þóra Helgadóttir efnahagsráðgjafi GAMMA í London
