Jennifer Lawrence hefur opnað sig um slæma framkomu leikstjóra í sinn garð vegna kynferðis síns. Hún ræddi um atvikið á árlegum kvennafögnuði tímaritsins Elle í gærkvöldi.
„Þegar ég var ung og að stíga mín fyrstu skref sem leikkona tjáðu framleiðendur kvikmyndarinnar mér að ég þyrfti að losa mig við 15 pund [7 kg] á tveimur vikum. Ég vissi að önnur leikkona hafði þegar verið látin fjúka vegna þess að hún gat ekki lést nógu hratt að mati framleiðandanna,“ sagði Lawrence í tölu sinni.
Þá lýsti hún því hvernig leikstjórinn, sem var kvenkyns, stillti henni nakinni upp á meðal kvenna sem voru að sögn Lawrence „miklu grennri en hún sjálf“. Leikstjórinn myndaði Lawrence og sagði henni svo að líta á ljósmyndirnar ef hún þyrfti á hvatningu til þess að grenna sig að halda.
Lawrence sagði að þegar hún hafi beðið um að fá að eiga samtal við karlkyns framleiðanda um þessar óraunhæfu megrunarkröfur þá hafi hann svarað: „Ég veit ekki af hverju öllum finnst þú svona feit, mér finnst þú fullkomlega „ríðanleg“ [e. fuckable].
Alls deildu átta heiðursgestir reynslu sinni af kynferðislegu áreiti í Hollywood á viðburðinum, þar á meðal leikkonan Reese Witherspoon.
Umræða um kynferðislegt áreiti í garð kvenna í kvikmyndaiðnaðinum hefur verið í hámæli undanfarna daga eftir að fjöldi kvenna steig fram og opnaði sig um áreiti leikstjórans Harveys Weinstein.
Listen to J-Law's story of abuse in Hollywood: I was told to lose 15 pounds in 2 wks, do degrading, nude photo shoot #ELLEWIH pic.twitter.com/yosXP9tFXw
— Carly Mallenbaum (@ThatGirlCarly) October 17, 2017