Sýslumaður féllst á lögbannskröfu Glitnis HoldCo við birtingu Stundarinnar og Reykjavík Media á fréttaflutningi byggðum á gögnum frá Glitni. Víða er látið að því liggja að Þórólfur sé þar að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins.
Samfélagsmiðlarnir loga
Vísir greindi frá málinu seinni partinn í gær og í framhaldinu var meðal annars rætt við Sigríði Rut Júlíusdóttur, annan lögmanna Stundarinnar, sem efast um að krafan standist lög. Stundin lýsir því sjálf þegar fulltrúar sýslumanns komu til að framfylgja kröfunni en Kjarninn birti lögbannsbeiðina í heild sinni í gær.
Gegnheill Sjálfstæðismaður
Bent hefur verið á að Þórólfur sé gegnheill Sjálfstæðismaður, en hann hefur verið í framboði fyrir flokkinn, verið formaður kjördæmaráðs og starfaði innan SUS.
Kvennablaðið hefur birt einskonar nærmynd af Þórólfi þar sem ferill hans er rakinn undir yfirskriftinni „Frá SUS til sýslumannaembættis“.

Flokkshollustan hleypur með Þórólf í gönur
Á Facebook er víða í dreifingu frétt DV frá árinu 1998 sem höfð er til marks um flokkshollustu Þórólfs. Reyndar má segja að hann hafi farið offari. Þar er greint frá því að Þórólfur hafi verið grunaður um að hafa staðið að kosningasvindli. Hann var þá varaformaður Sjálfstæðisfélagsins á Patreksfirði og kjörstjóri utankjörfundarkosningar.
Þórólfur var meðal annars sakaður um að bera kjörkassa í heimahús og á sjúkrahús Patreksfjarðar og láta sjúklinga og eldra fólk kjósa. Málið kom til kasta nefndar félagsmálaráðuneytisins sem sagði vinnubrögð sýslumannsins ámælisverð. En ekki er að sjá að þessi framganga hafi haft neina eftirmála í för með sér eða verið steinn í götu Þórólfs sé litið til framabrautarinnar, sem nú er sýslumaður yfir stærsta sýslumannsembætti landsins.
Fyrir dyrum stendur fundur hjá stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis vegna málsins. Er það samkvæmt óskum Pírata og Vg. RÚV greinir frá því að sá fundur fari líkast til fram á fimmtudaginn.