Innlent

Látið að liggja að Þórólfur sé að ganga erinda Bjarna

Jakob Bjarnar skrifar
Hvorki næst í forsætisráðherra né sýslumann en á netinu logar allt stafna á milli vegna lögbanns sem gert var á fréttaflutning Stundarinnar.
Hvorki næst í forsætisráðherra né sýslumann en á netinu logar allt stafna á milli vegna lögbanns sem gert var á fréttaflutning Stundarinnar.
Vísir hefur gert ítrekaðar tilraunir nú í allan morgun til að ná í Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og Þórólf Halldórsson sýslumann á höfuðborgarsvæðinu, vegna lögbannskröfu á fréttaflutning Stundarinnar, en án árangurs.

Sýslumaður féllst á lögbannskröfu Glitnis HoldCo við birtingu Stundarinnar og Reykjavík Media á fréttaflutningi byggðum á gögnum frá Glitni. Víða er látið að því liggja að Þórólfur sé þar að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins.

Samfélagsmiðlarnir loga

Vísir greindi frá málinu seinni partinn í gær og í framhaldinu var meðal annars rætt við Sigríði Rut Júlíusdóttur, annan lögmanna Stundarinnar, sem efast um að krafan standist lög. Stundin lýsir því sjálf þegar fulltrúar sýslumanns komu til að framfylgja kröfunni en Kjarninn birti lögbannsbeiðina í heild sinni í gær.

Samfélagsmiðlar loguðu, og loga, vegna málsins, eins og til að mynda dv.is hefur rakið. En, þar leyfir ekki af því að hreinlega sé fullyrt að Þórólfur hafi verið að ganga erinda Bjarna og Sjálfstæðisflokksins nú í aðdraganda kosninga, með því að skrúfa fyrir fréttaflutninginn með svo afgerandi hætti. En, Stundin hefur einkum beint sjónum að viðskiptum Bjarna, fréttir sem fjölmiðillinn hefur byggt á gögnunum frá Glitni.

Gegnheill Sjálfstæðismaður

Bent hefur verið á að Þórólfur sé gegnheill Sjálfstæðismaður, en hann hefur verið í framboði fyrir flokkinn, verið formaður kjördæmaráðs og starfaði innan SUS.

Kvennablaðið hefur birt einskonar nærmynd af Þórólfi þar sem ferill hans er rakinn undir yfirskriftinni „Frá SUS til sýslumannaembættis“.

Þessi frétt DV frá því júní 1998 gengur nú um samfélagsmiðla og er hún höfð til marks um flokkshollustu sýslumanns.
Þar kemur fram að Þórólfur var skipaður sýslumaður á Patreksfirði 1994 í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, þaðan fór hann í embætti sýslumanns í Keflavík 2008 en þá var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og árið 2014 skipaði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra Þórólf sýslumann höfuðborgarsvæðisins.

Flokkshollustan hleypur með Þórólf í gönur

Á Facebook er víða í dreifingu frétt DV frá árinu 1998 sem höfð er til marks um flokkshollustu Þórólfs. Reyndar má segja að hann hafi farið offari. Þar er greint frá því að Þórólfur hafi verið grunaður um að hafa staðið að kosningasvindli. Hann var þá varaformaður Sjálfstæðisfélagsins á Patreksfirði og kjörstjóri utankjörfundarkosningar.

Þórólfur var meðal annars sakaður um að bera kjörkassa í heimahús og á sjúkrahús Patreksfjarðar og láta sjúklinga og eldra fólk kjósa. Málið kom til kasta nefndar félagsmálaráðuneytisins sem sagði vinnubrögð sýslumannsins ámælisverð. En ekki er að sjá að þessi framganga hafi haft neina eftirmála í för með sér eða verið steinn í götu Þórólfs sé litið til framabrautarinnar, sem nú er sýslumaður yfir stærsta sýslumannsembætti landsins.

Fyrir dyrum stendur fundur hjá stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis vegna málsins. Er það samkvæmt óskum Pírata og Vg. RÚV greinir frá því að sá fundur fari líkast til fram á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir

Umfjöllun um gögn frá Glitni var ekki lokið

Lögbann var í gær lagt við fréttaflutningi Stundarinnar sem reistur er á gögnum innan úr Glitni frá því fyrir hrun. Ritstjórinn segir að ekki hafi verið lokið við umfjöllun byggða á gögnum innan úr Glitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×