Rússnesku stelpurnar skrifuðu nýjan kafla í knattspyrnusögu rússnesku þjóðarinnar í fyrsta leik sínum á EM í Hollandi í dag. Rússland vann þá 2-1 sigur á Ítalíu í fyrsta leik B-riðils keppninnar.
Þetta er fyrsti sigur rússneska kvennalandsliðsins í úrslitakeppni EM og kom mjög á óvart.
Ítalirnir sóttu mikið í lokin og voru ótrúlega nálægt því að jafna metin og fá eitthvað úr leiknum. Rússnesku stelpurnar héldu hinsvegar út og tryggðu sér sögulegan sigur.
Ítalía var sigurstranglegra liðið fyrir leikinn en ítölsku stelpurnar unnu 3-0 sigur í vináttuleik þjóðanna í desember og höfðu unnið þrjá síðustu leiki þjóðanna á stórmótum.
Tapið þýðir að Ítalir þurfa líklega að vinna bæði Þjóðverjar og Svía til að eiga möguleika á því að komast í átta liða úrslitin og það verður þrautinni þyngra.
Rússar lögðu grunninn að sigrinum með því að skora tvö mörk í fyrri hálfleiknum. Það fyrra skoraði Elena Danilova með langskoti eftir níu mínútna leik en það síðara skoraði Elena Morozova með skalla á 26. mínútu.
Ítalir settu spennu í leikinn í lokin þegar Ilaria Mauro minnkaði muninn í 2-1 á 88. mínútu og innan við mínútu síðar var mark réttilega dæmt af Ítölum vegna rangstöðu. Í uppbótartíma náðu Rússar síðan að bjarga á línu á einhvern ótrúlegan hátt.
Þýskaland og Svíþjóð mætast í hinum leik riðilsins í kvöld.
Fótbolti