Viðskipti innlent

Ármann Þorvaldsson hættur í Virðingu og verður nýr forstjóri Kviku banka

Hörður Ægisson skrifar
Ármann Þorvaldsson starfaði áður sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Virðingar.
Ármann Þorvaldsson starfaði áður sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Virðingar.
Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi, mun taka við Sigurði Atla Jónssyni sem forstjóri Kviku fjárfestingabanka, samkvæmt heimildum Vísis. Greint var frá því fyrr í dag að Sigurður Atli hefði tilkynnt stjórn bankans að hann hefði ákveðið að láta af störfum.

Ármann hefur starfað hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu undanfarin tvö ár, síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, en hætti þar störfum í dag, samkvæmt öruggum heimildum Vísis. Þá mun Marinó Örn Tryggvason, sem hefur verið forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta í Arion banka, koma yfir til Kviku og verða aðstoðarforstjóri bankans.

Stjórnir Kviku banka og Virðingar höfðu verið í viðræðum um sameiningu félaganna um nokkurra mánaða skeið en í lok mars á þessu ári var þeim slitið.

Kvika banki varð til eftir sameiningu MP banka og Straums fjárfestingabanka sumarið 2015. Á árinu 2016 nam hagnaður Kviku um tveimur milljörðum króna og arðsemi eigin fjár var 34,7 prósent. Í dag var greint frá því að hagnaður Kviku eftir skatta hefði numið tæplega 400 milljónum króna, sem var talsvert umfram áætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×