Erlent

Stjórnarandstaðan í Venesúela boðar til nýs allsherjarverkfalls

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölmargir særðust í mótmælum í höfuðborginni Caracas í gær.
Fjölmargir særðust í mótmælum í höfuðborginni Caracas í gær. Vísir/afp
Stjórnarandstaðan í Venesúela hefur boðað til nýs allsherjarverkfalls í næstu viku til að mótmæla forsetanum Nicolás Maduro og fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum hans.

Verkfallið á að standa í tvo daga – á miðvikudag og fimmtudag – en á mánudag og föstudag eru fyrirhugaðar mótmælaaðgerðir í stærstu borgum landsins.

Fjölmargir særðust í mótmælum í höfuðborginni Caracas í gær þar sem mörg hundruð ungra mótmælenda köstuðu grjóti og eldsprengjum í átt að öryggissveitum sem beittu táragasi til að dreifa mannfjöldanum.

Arteaga særðist

Hinn 23 ára Wuilly Arteaga var í hópi þeirra sem særðust í gær en hann hefur orðið ein af táknmyndum mótmælanna eftir að hafa spilað þjóðsöng landsins á fiðlu í miðjum mótmælum. Hann særðist í andliti en tísti síðar frá sjúkrahúsi að „hvorki gúmmíkúlur eða byssukúlur ykkar muni stöðva baráttu okkar fyrir frelsi Venesúela. Á morgun verð ég aftur kominn út á göturnar.“

Reglulega hefur komið til átaka milli mótmælenda og öryggissveita síðan í apríl og hafa um hundrað manns látið lífið í þeim. Þúsundir manna hafa særst.

Markmið mótmælendanna er að fá stjórnvöld til að flýta forsetakosningum í landinu og þannig losna við Maduro úr embætti.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er fyrirhuguð þann 30. júlí næstkomandi þar sem kosið verður um nýtt stjórnlagaþing sem er ætlað vald til að semja nýja stjórnarskrá.

Stjórnvöld í Venesúela munu senda um 230 þúsund hermenn á vettvang til að tryggja öryggi á kjördag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×