Grænlendingar fá sína fyrstu stórskipahöfn í sumar en hún er talin marka þáttaskil fyrir atvinnulíf landsins. Íslendingar hafa gegnt lykilhlutverki í hönnun og smíði hafnarinnar. Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá framkvæmdum í Nuuk.
Þróun atvinnulífs í Nuuk líður fyrir þrengslin í gömlu höfninni. Þar ægir saman fiskiskipum af öllum stærðum og gerðum. Samtímis þarf að afgreiða flutningaskipin, bæði þau sem fara á innanlandshafnir og þau sem koma frá Álaborg í Danmörku og það sárvantar pláss fyrir skemmtiferðaskip.

En nú sjá Grænlendingar fram á byltingu. Ný gámahöfn er að verða tilbúin og þar skipar íslensk verkfræðiþekking stóran sess. Efla hannaði byggingar og Mannvit annast eftirlit.
Aðalverktakar eru danska félagið Per Aarsleff, með hafnarbakka, en dótturfélag þess, Ístak, sér um húsbyggingar. Þarna starfa einnig íslenskir undirverktakar, eins og málarar og plötusmiðir. Þá annast borpramminn Þrymur boranir vegna sprenginga.

„Það eru Íslendingar sem eru uppistaðan í byggingavinnunni og síðan að hluta til í jarðvinnunni líka. Til dæmis öll stjórnin í byggingunum er í höndum Íslendinga,“ segir Jón Ingi Georgsson, tæknifræðingur hjá Ístaki, sem titlaður er framleiðslustjóri bygginga á svæðinu.
Verkkaupi er hafnarfélag í eigu landstjórnar Grænlands, Sikuki, og þar er Íslendingur varaformaður stjórnar, Haukur Óskarsson. Mest hafa um 60 Íslendingar starfað við hafnargerðina en þeim hefur nú fækkað niður í 20 til 30.

Jón Ingi segir verkið hafa gengið þokkalega. Óvæntir þættir hafi helst komið upp við sprengingar fyrir utan en annað hafi gengið eins og við mátti búast.
Gömlu hafnarbakkarnir taka aðeins við smærri flutningaskipum en með nýju gámahöfninni geta Grænlendingar sagt að þeir eigi stórskipahöfn. Áætlað er að nýja höfnin verði tekin í notkun í byrjun júlí í sumar.

