Bíó og sjónvarp

Bestu kvikmyndir ársins 2016

Tómas Valgeirsson skrifar
The Neon Demon er vægast sagt umræðuverð kvikmynd og kemur alls ekki á óvart að hún hafi fengið blendnar viðtökur. Eitthvað er samt mjög sérstakt við þetta kvikindi, eitthvað seiðandi og bítandi.
The Neon Demon er vægast sagt umræðuverð kvikmynd og kemur alls ekki á óvart að hún hafi fengið blendnar viðtökur. Eitthvað er samt mjög sérstakt við þetta kvikindi, eitthvað seiðandi og bítandi.
Árið 2016 var stórt og mikið kvikmyndaár. Að neðan má sjá val kvikmyndagagnrýnanda Fréttablaðsins á bestu kvikmyndum ársins 2016.



10. Bone Tomahawk


Ef þú kannt að meta gamaldags vestra í nýjum búningi, þá er Bone Tomahawk sérsniðin fyrir þig, enda naglhart eintak þar sem örlitlum hryllingi er vafið inn í formúluna og má lýsa flæðinu sem hægum bruna. Kurt Russell og aðrir skotheldir leikarar bera stemninguna uppi ásamt leikstjórn sem lekur af sjálfsöryggi. Myndin er spennandi, grípandi og kemur margsinnis á óvart. Meira svona!

9. Green Room

Mjög fáar spennumyndir á þessu ári hafa fengið undirritaðan til að hanga á sætisbrúninni eins oft og þessi. Green Room er mikill rússíbani. Einfalt, hrátt og hraðskreitt bíó en með magnaðan púls og flottan stíl. Það var hundleiðinlegt að missa Anton Yelchin á þessu ári (ásamt mörgum öðrum, auðvitað) og sýnir þessi mynd mjög vel hvaða styrkleika hann hafði sem leikari. Patrick Stewart er einnig ógleymanlegur sem pirraður nýnasistaforingi. Geggjaður lítill tryllir sem gefur ekkert eftir.

8. The Nice Guys

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Shane Black er engum líkur þegar kemur að svokölluðum „buddy“-myndum. Black skrifar yfirleitt frekar manneskjulega og hversdagslega karaktera/skíthæla í ýktum, farsakenndum kringumstæðum.

Russell Crowe og Ryan Gosling eru engin undantekning þar og mynda þeir alveg meiriháttar dúó. Hnyttið handrit, snjöll framvinda, yndislega flæktur söguþráður og æðislegir karakterar, allt þetta púslast í stórskemmtilegan hlaupagang.

Black sækir í spæjarasögu af gamla skólanum og bragðbætir umgjörðina með flottri „seventís“ innrömmun og tilheyrandi tónlist. Toppafþreying. Mögulega ein fyndnasta mynd ársins.

7. Hell or High Water

Hér er einföld og á marga vegu fyrirsjáanleg saga en það tekst að yfirstíga þann galla með markvissri leikstjórn, beittu handriti og flottum leik.

Hell or High Water er þrumugóður nútímavestri, strengdur saman úr áhugaverðum persónusamskiptum og skrúfar fastar og fastar því lengra sem á líður.

Leikararnir eru allir skotheldir (Jeff Bridges hefur ekki muldrað svona skemmtilega í nokkur ár) og  reglulega er slakað á sögunni en hún rígheldur samt spennunni allan tímann.

6. The Lobster

The Lobster var einn af hápunktum Stockfish-hátíðinnar í ár og er fúlt að hún skuli ekki hafa farið í almennar sýningar. Þetta er súr en athyglisverð saga sem gerist í „nálægri framtíð“ þar sem er illa séð að vera einhleypur.

Hérna er svo hart tekið á því að fólki eru aðeins gefnir 45 dagar til að finna sér maka, annars verður því breytt í dýr (að eigin vali) sem verða send út í skóg. Eftir því sem á líður verður þetta aðeins furðulegra.

Í handritinu eru samfélagskröfur til sambanda settar undir smásjána með bráðfyndnum en í senn truflandi hætti. Colin Farrell sýnir sínar bestu hliðar sem og allir aðrir sem prýða þessa merkilega súru en bitastæðu og 100% óútreiknanlegu mynd.

5. The Witch

Það mættu alveg vera fleiri hrollvekjur eins og þessi. Í The Witch er lítill sem enginn áhugi sýndur á því að láta áhorfendum bregða eða hneyksla af ástæðulausu, heldur er frásögn, þemu og andrúmsloft sett í forgrunninn af aðdáunarverðri nákvæmni.

Myndin var gerð fyrir smápeninga en vel sést að hver einasti aur hefur verið nýttur til fulls. Flottar sviðsmyndir standa sérstaklega upp úr og er lítið út á kvikmyndatökuna að setja eða leikarana.

Hins vegar verður að segjast að geitin Black Phillip stelur senunni.

4. Swiss Army Man

Aldrei hefði mér dottið það í hug að hægt væri að gera hjartahlýja, marglaga, ruddalega fyndna og hreinskilna vináttusögu þar sem annar aðili kjarnatvíeykisins er síprumpandi lík, meistaralega leikið af Daniel Radcliffe í þessu tilfelli.

Swiss Army Man er algjörlega einstök og skemmtileg lítil perla, borin einmitt uppi af Radcliffe og Paul Dano. Myndin er stútfull af skrautlegum pælingum um lífið, tilveruna og mannlegt eðli en hún er framsett sem vægast sagt flippuð, dökk dramakómedía sem þarf eiginlega að sjá til að trúa.

Óvæntasta steik ársins.

3. Sing Street

Sing Street er án efa einn mesti glaðningur ársins. Hún er saga um ungmenni sem ákveða að stofna hljómsveit í Dublin á miðjum níunda áratugnum.

Við tekur sjarmerandi, skemmtileg og ómótstæðilega jákvæð þroskasaga þar sem unglingahormónar, erfiði og lífleg tónlist spilar stóra rullu. Klisjur eru til staðar en spilað er frábærlega úr þeim.

Leikararnir eru æðislegir og vantar hvorki vellíðunarstraumana né gleðismitið. Mynd sem er vel þess virði að faðma fast að sér.

2. Kubo and the Two Strings

Hægt og rólega hef ég áttað mig á því að snillingarnir hjá Laika-teiknimyndaverinu (Coraline, ParaNorman) eru að gera einhvers konar kraftaverk. Það er varla hægt að segja að þeir séu hræddir við fullorðinsleg þemu og villta sköpunargleði.

Kubo and the Two Strings er í alla staði gullfalleg leirbrúðumynd (gerð með aðstoð tölvubrellna); heillandi, sorgleg, stórskemmtileg og fyndin.

Þó þetta sé ekki dæmigerð fjölskyldumynd er svo sannarlega eitthvað sem allir aldurshópar geta fundið til að tengja við; karakterarnir, heimurinn, stíllinn, handritið, boðskapurinn eða ævintýrafílingurinn. Flott, frumleg og minnisstæð. Dásamleg.

1. The Neon Demon

Hér er kvikmynd sem á sér varla hliðstæðu, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. The Neon Demon er vægast sagt umræðuverð kvikmynd og kemur alls ekki á óvart að hún hafi fengið blendnar viðtökur.

Eitthvað er samt mjög sérstakt við þetta kvikindi, eitthvað seiðandi og bítandi. Danski prakkarinn Nicholas Winding Refn hefur útfært hér einkennilega hrollvekju sem snýr að tískuiðnaðinum, þrá og útlitsdýrkun. Fegurð og viðbjóður tvinnast hér saman í einn og hálfan tíma.

Refn er allur í ýktri, djarfri og draumkenndri stílíseringu og spilar með myndmál og hugmyndir frekar en að binda sig við ákveðnar handritsreglur. Að þessu frátöldu er kvikmyndatakan algjört gull, hver rammi í myndinni er dökkt, lokkandi listaverk og tónlistin álíka geggjuð og efniviðurinn. Þetta verður „költari“.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.