Enski boltinn

Sjötti sigur Manchester United í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Mata fagnar marki sínu.
Juan Mata fagnar marki sínu. Vísir/AFP
Manchester United nálgast efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar hægt og rólega en liðið vann sinn sjötta leik í röð í kvöld.

Manchester United vann þá 2-0 útisigur á West Ham United í London en bæði mörk liðsins komu í seinni hálfleiknum. United-liðið naut góðs af því að spila ellefu á móti tíu frá fimmtándu mínútu leiksins.

Varamaðurinn Juan Mata og Zlatan Ibrahimovic skoruðu mörk Manchester United í leiknum. Ibrahimovic hefur þar með skorað 13 mörk í 20 deildarleikjum þar af níu þeirra í síðustu átta leikjum.

Manchester United hefur nú fengið 18 stig af 18 mögulegum í síðustu sex leikjum sínum og ennfremur ekki tapað í ensku úrvalsdeildinni síðan 23. október eða í ellefu leikjum í röð.

West Ham missti mann af velli strax á 15. mínútu þegar Sofiane Feghouli fékk beint rautt spjald fyrri tæklingu á Phil Jones. Flestir geta verið sammála því að þetta hafi verið mjög harður dómur.

Manchester United náði ekki að nýta sér þetta í fyrri hálfleiknum og staðan var enn markalaust í hálfleik.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, setti Juan Mata inn fyrir Matteo Darmian í hálfleik en það var eiginlega ekki fyrr en Marcus Rashford kom inná fyrir Jesse Lingard á 58. mínútu sem hlutirnir fóru að gerast.

Marcus Rashford lagði upp mark fyrir Juan Mata fjórum mínútum síðar og var mjög ógnandi það sem eftir lifði leiksins.

Zlatan Ibrahimovic skoraði annað markið á 78. mínútu en hann var rangstæður þegar hann fékk boltann frá Ander Herrera.

Marcus Rashford hefði átt að fá fleiri stoðsendingar en félögum hans tókst ekki að bæta við mörkum þrátt fyrir góða þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×