Enski boltinn

Zlatan: Eins og alltaf læt ég sérfræðingana sjúga á sér eistun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan Ibrahimovic segir flest það sem honum dettur í hug.
Zlatan Ibrahimovic segir flest það sem honum dettur í hug. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Manchester United, segir að mörkin sín 17 fyrir liðið á fyrri hluta leiktíðar neyði sérfræðingana og alla þá sem efuðust um getu hans til að sjúga á sér eistun (e. eat their balls). Enn fremur segir Svíinn að United geti enn orðið enskur meistari.

Manchester United er búið að vinna fimm leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og mætir West Ham klukkan 17.15 en sex leikir fara fram í dag. Zlatan, sem er 35 ára gamall, er búinn að skora 50 mörk á árinu fyrir PSG og United en löglegt mark var tekið af honum í síðasta sigurleik gegn Middlesbrough.

Markið má sjá í spilaranum að neðan (0:48) ásamt því helsta úr leiknum þar sem United bjargaði sér fyrir horn undir lokin.

Bara Lionel Messi skoraði fleiri mörk en Zlatan á síðasta ári fyrir félagslið en Argentínumaðurinn magnaði setti 51 mark fyrir Barcelona. Zlatan hefði jafnað við hann hefði markið gegn Boro fengið að standa. 

Svínn er heldur betur sáttur við árið 2016: „Ég átti frábært ár og ég kvarta ekki. Ég kom til United og fyrstu sex mánuðirnir hérna hafa verið frábærir,“ segir Zlatan en hann ræddi við blaðamenn fyrir leikinn gegn West Ham.

„Ég er gríðarlega ánægður. Vonandi getum við haldið áfram svona og haldið áfram að vinna. Mér líður vel. Ég veit ekki hversu mörg ár ég á eftir en ég nýt þess að spila fótbolta. Það sögðu allir að ég gæti ekki spilað í ensku úrvalsdeildinni en eins og alltaf neyði ég alla til að sjúga á sér eistun,“ segir Zlatan en hann beini orðum sínum að sérfræðingum sem fá borgað fyrir að greina leiki í deildinni.

„Þetta gefur mér mikla orku, treystið mér. Ég fæ mikla orku út úr þessu því þeir fá borgað fyrir að bulla en ég fæ borgað fyrir að nota fæturna. Þess vegna hef ég svo gaman að þessu,“ segir Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×