Innlent

Æ færri senda jólakort

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Desember er jafnan annatími hjá póstinum.
Desember er jafnan annatími hjá póstinum. Fréttablaðið/Arnþór
Sífellt færri landsmenn senda jólakort til vina eða ættingja með bréfpósti. Þetta sýnir nýleg könnun MMR sem framkvæmd var dagana 12-15. desember. Í ár munu 41,7% landsmanna senda jólakort með bréfpósti samanborið við 45 prósent í fyrra og 56 prósent árið áður. Á sama tíma fjölgar þeim sem eingöngu senda rafrænt jólakort. Þrettán prósent segjast munu senda rafrænt jólakort í ár, samanborið við 11,5 prósent í fyrra og tæp 11 prósent árið áður.

Þeim fjölgar jafnframt sem ekki senda jólakort en 45 prósent kváðust ekki ætla að senda jólakort í ár. Þetta er aukning um tæp tvö prósentustig milli ára og aukning um rúm 12 prósentustig frá árinu 2015.

Íslendingar á aldrinum 18-29 ára voru talsvert ólíklegri til að senda jólakort heldur en fólk 30 ára og eldra. Þannig sögðust 72 prósent þeirra sem voru á aldrinum 18-29 ára ekki ætla að senda nein jólakort í ár. Könnun MMR var gerð þannig að 923 einstaklingar sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR svöruðu spurningunni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×