Enski boltinn

Skórnir upp í hillu hjá Rosicky

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tomas Rosicky í leik með Tékkum.
Tomas Rosicky í leik með Tékkum. Vísir/Getty
Tomas Rosicky hefur ákveðið að setja punkt við atvinnumannaferilinn í knattspyrnu. Hann spilaði lengst af með Arsenal og var þar í tíu ár.

Rosicky er 37 ára og sneri aftur til uppeldisfélagsins í fyrra, Sparta Prag. Engum duldist að hann væri frábær leikmaður en hann glímdi oft við meiðsli á árunum tíu sem hann varði í Lundúnum.

„Eftir vandlega íhugun geri ég mér nú grein fyrir því að ég get ekki undirbúið líkama minn fyrir að mæta þeim kröfum sem fótboltinn gerir,“ sagði hann í tilkynningu sinni.

Rosicky varð tvívegis bikarmeistari með Arsenal en náði aldrei að spila meira en 28 leiki á einu og sama tímabilinu með félaginu.

Hann spilaði 105 landsleiki og var með liði Tékka á fjórum mismunandi Evrópumótum sem og HM 2006. Hann spilaði sinn 100. landsleik gegn Íslandi á Laugardalsvelli þann 12. júní 2015. Strákarnir okkar unnu leikinn, 2-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×