Erlent

Hútar skutu eldflaugum á Sádi-Arabíu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hart hefur verið barist í Jemen undanfarin tvö ár.
Hart hefur verið barist í Jemen undanfarin tvö ár. vísir/epa
Hernaðarbandalagið sem Sádi-Arabar eru í forsvari fyrir gegn Hútum, uppreisnarmönnum í Jemen, skaut niður eldflaug sem stefndi á Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu, í gær. Frá þessu greindu ríkismiðlar þar í landi. Engan sakaði en sjá mátti fjölda mynda af reykjarmekkinum á samfélagsmiðlum.

Eldflaugin stefndi á fund sádiarabískra leiðtoga í al-Yamama-höll, að því er sjónvarpsstöð Húta, al-Masirah TV, greindi frá. Á meðal þeirra sem sóttu fundinn var krónprinsinn Mohammed bin Salman en í al-Yamama eru skrifstofur konungsfjölskyldunnar.

Um var að ræða eldflaug af gerðinni Burkan-2 og sagði sjónvarpsstöðin frá því að skotið væri „svar við svívirðilegum glæpum sem Bandaríkjamenn og Sádi-Arabar hafa framið í Jemen“.

Talsmaður ríkisstjórnar Sádi-Arabíu sagði eftir árásina að hún sannaði áframhaldandi stuðning íranskra stjórnvalda við Húta. Sá stuðningur bryti gegn samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ógnaði stöðugleika og friði á svæðinu.

Íranar og Sádi-Arabar eiga í eins konar köldu stríði. Borgarastyrjöldin í Jemen er talin leppstríð þar sem Sádi-Arabar og bandamenn þeirra berjast við Húta sem njóta stuðnings íranskra stjórnvalda. Íranar hafa þó neitað því að þeir sjái Hútum fyrir vopnum.

Aðgerðir hernaðarbandalagsins gegn vopnasmygli til Jemens voru hertar eftir svipað eldflaugaskot þann 4. nóvember síðastliðinn. Sameinuðu þjóðirnar hafa þó varað við aðgerðunum þar sem þær hamla matvælaflutningum til landsins. Jemen er nefnilega á barmi hungursneyðar sem gæti orðið sú mesta og alvarlegasta í heiminum í áratugaraðir.

Að minnsta kosti 8.670 hafa látið lífið frá því borgarastyrjöldin hófst árið 2015 og 49.960 hafa særst samkvæmt SÞ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×