Innlent

Of seint í rassinn gripið segir oddviti um undirskriftir

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Grunnskólinn er norðarlega á Þórshöfn en leikskólinn er meira miðsvæðis.
Grunnskólinn er norðarlega á Þórshöfn en leikskólinn er meira miðsvæðis. vísir/pjetur
„Þetta er ákvörðun sem á að taka með faglegum rökum en ekki með pólitík,“ segir Siggeir Stefánsson, fulltrúi minnihluta U-listans í sveitarstjórn Langanesbyggðar, sem lagt hefur fram lista með nöfnum 30 prósenta kjörbærra íbúa í sveitarfélaginu með áskorun um að kosið verði um staðsetningu nýs leikskóla.

„Greinilegt er að íbúar vilja taka þátt í ákvörðuninni um staðsetningu nýs leikskóla og hefðu íbúar Langanesbyggðar þá möguleika á að koma sínum skoðunum á framfæri,“ segir í bókun U-listans í málinu.

Húsnæði núverandi leikskóla á Þórshöfn er illa farið og eining um að nýtt húsnæði þurfi. Meirihluti N-lista og L-lista vilja byggja við núverandi húsnæði nærri heilsugæslunni en fulltrúar U-listans vilja byggja nýjan leikskóla áfastan við Grunnskóla Þórshafnar. Þeir vitna til ráðgjafar Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors við kennaradeild Háskóla Íslands.

Ingvar hafði áður stutt að leikskólinn yrði byggður við grunnskólann og sagt fyrir því bæði fagleg og rekstrarleg rök. Hann kveðst í umsögn hafa í aðdraganda íbúafundar um málið gert könnun á því hvernig samskipan leikskóla og grunnskóla hefur gengið annars staðar og fengið svör frá níu skólastjórum. Niðurstaðan hafi verið sú að kostir væru miklu fleiri en gallar.

„Fyrir lítið sveitarfélag er afar skynsamlegt, bæði af rekstrarlegum og faglegum ástæðum, að hafa leik- og grunnskóla í sömu byggingu, sé þess nokkur kostur. Margt bendir líka til þess að virðisaukinn af þessu fyrirkomulagi sé mestur þegar bæði stigin lúta sömu stjórn,“ segir í umsögn Ingvars. Það sé afar miður að meirihluti sveitarstjórnar vilji ekki skipta um skoðun.

„Við fögnum öllum góðum áskorunum en þetta er fullt seint í rassinn gripið því þetta verk er komið á framkvæmdastig,“ segir Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti. Fyrsta skóflustunga hafi verið tekin fyrr í þessum mánuði og verið sé að undirbúa útboð á verkinu. „Það var ekki farið eftir lögum og reglum við þessa undirskriftasöfnun þannig að hún er í raun ómarktækt plagg. Undirskriftalistarnir hafa þess utan ekki verið afhentir mér vitanlega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×