Innlent

Áslaug Ýr komin heim frá Svíþjóð: „Þarna fann ég að ég er ekki ein“

Atli Ísleifsson skrifar
Áslaug Ýr segist hafa kynnst ótrúlegu fólki sem hún hafi lært mikið af og hafi gert hana enn stoltari af því að vera daufblind.
Áslaug Ýr segist hafa kynnst ótrúlegu fólki sem hún hafi lært mikið af og hafi gert hana enn stoltari af því að vera daufblind. Facebook-síða Áslaugar Ýrar
Áslaug Ýr Hjartardóttir er kominn aftur heim til Íslands frá Svíþjóð þar sem hún tók þátt í sumarbúðum fyrir daufblinda í eina viku. Í færslu á Facebook segist hún endurnærð eftir dvölina og ætla að snúa aftur í sömu búðir að tveimur árum liðnum.

Áslaug Ýr tapaði fyrr í sumar máli sínu gegn ríkinu eftir að henni hafði verið synjað um túlkaþjónustu í umræddum sumarbúðum fyrir daufblind ungmenni í sumar. Áslaug gagnrýndi dóminn harðlega og sagði að breyta þyrfti lögum og reglum til að tryggja mannréttindi í landinu.

Hún er nú komin heim til Íslands og hrósar Svíunum sérstaklega fyrir skipulagningu og framkvæmd búðanna sem haldnar voru í Bosön, norðaustur af Stokkhólmi. „Þarna fann ég að ég er ekki ein, það eru fleiri í svipaðri stöðu og ég. Ég fór langt út fyrir þægindarammann og uppgötvaði hvað lífið getur í raun verið einfalt ef maður bara vill og þorir.“

Tilbúin að næsta slag

Áslaug Ýr segist hafa kynnst ótrúlegu fólki í sumarbúðunum sem hún hafi lært mikið af og hafi gert hana enn stoltari af því að vera daufblind. „Mér finnst ég sama sem endurnærð og tilbúin í næsta slag eftir þessa dvöl, enda stórt og erfitt verk framundan.

Ég ætla mér í þessar sömu sumarbúðir eftir 2 ár og er enn ákveðnari en nokkru sinni fyrr að gera eitthvað í túlkamálum hérlendis til að tryggja að ég og annað daufblint fólk fái þá þjónustu sem það þarf óháð aldri, efnahagsstöðu eða landi,“ segir Áslaug Ýr, en að neðan má sjá myndir úr búðunum.


Tengdar fréttir

Áslaug áfrýjar túlkadómi

Áslaug Ýr Hjartardóttir hyggst áfrýja dómi héraðsdóms um að ríkinu beri ekki skylda til að greiða fyrir túlkaþjónustu hennar vegna sumarbúða í Svíþjóð, að sögn lögmanns hennar. Hún ætlar að taka lán fyrir ferðinni.

Formaður Öryrkjabandalagsins segir túlkadóm áfall

Formaður Öryrkjabandalagsins segir dóm héraðsdóms, um að Áslaug Ýr fái ekki túlkaþjónustu í norrænum sumarbúðum fyrir daufblinda, vera áfall fyrir mannréttindabaráttu fatlaðs fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×