Innlent

Jens fékk fimmtán mánaða fangelsisdóm

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jens Gunnarsson mætir í dómssalvið þingfestingu málsins í nóvember. Fyrir aftan hann er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Péturs Axels í málinu.
Jens Gunnarsson mætir í dómssalvið þingfestingu málsins í nóvember. Fyrir aftan hann er Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Péturs Axels í málinu. VÍSIR/ERNIR
Jens Gunnarsson, rannsóknarlögreglumaður hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi. Jens var ákærður fyrir spillingu, brot gegn þagnarskyldu og brot í opinberu starfi. 

Þá var Pétur Axel Pétursson, sem ákærður var fyrir spillingu með því að hafa boðið Jens gjafir fyrir aðstoð sína, dæmdur í níu mánaða fangelsi. Pétur Axel á nokkuð langan sakaferil að baki hjá lögreglu, aðallega fyrir mál gegn fíkniefnum en þyngsti dómurinn er sex mánaða fangelsi.

Þriðji maðurinn, Gottskálk Ágústsson, var sýknaður af ákæru en honum var gefið að sök að hafa lofað Jens tveimur flugmiðum með WOW air og hálfri milljón króna í peningum fyrir að útvega manninum skýrslu PriceWaterHouseCoopers um Kaupþing banka.

Mennirnir neituðu allir sök í málinu við þingfestingu en þinghald í málinu var lokað. Brot Jens vörðuð allt að sex ára fangelsisdómi en þriggja ára dómi í tilfelli hinna tveggja.

Sjá einnig: Leynifundur í Öskjuhlíð og krafa um peninga frá góðkunningja lögreglu

Dómur var kveðinn upp klukkan 11:30 en hefur ekki enn verið birtur á vef dómstólsins. Nánar verður fjallað um dóminn þegar hann verður birtur.

Málið er afar áhugavert fyrir margra hluta sakir. Upptaka af samtali Jens og Péturs Axels barst óvænt á borð ríkissaksóknara en hún er upphafið að málinu.

Þá mun þetta vera í fyrsta sinn sem íslenskur lögreglumaður er sakfelldur fyrir spillingu í starfi þótt fleiri dæmi séu um að sterkur grunur hafi verið um spillingu. Má nefna samskipti yfirmanna hjá lögreglunni við Franklín Steiner á sínum tíma sem dæmi um slíkt. 

Ítarlega hefur verið fjallað um mál þeirra Jens, Péturs og Gottskálks undanfarið ár og má lesa um það í fréttunum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×