Innlent

Kapphlaup að hefjast um Þjóðgarðastofnun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fra Jökulsárlóni. Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, kynnti áform um Þjóðgarðastofnun síðastliðið sumar.
Fra Jökulsárlóni. Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, kynnti áform um Þjóðgarðastofnun síðastliðið sumar. Stöð 2/Kristinn Þeyr Magnússon.
Kapphlaup er að hefjast milli sveitarfélaga um staðsetningu Þjóðgarðastofnunar. Borgarbyggð sækist eftir því að stofnunin verði á Hvanneyri og bæjarstjórinn á Hornafirði segir eðlilegt að yfirstjórnin verði þar, að minnsta kosti að hluta til. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Það var Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem síðastliðið sumar kynnti áform um að koma á fót Þjóðgarðastofnun, og nýr ráðherra málaflokksins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, lýsti stuðningi sínum við málið í Víglínunni á Stöð 2 fyrir jól. 

„Það hefur verið kallað eftir þessu mjög lengi að reyna að samhæfa betur stjórnun friðlýstra svæða á Íslandi, eða verndaðra svæða. Við erum að setja þetta allt undir einn hatt. Það var kallað eftir þessu meðal annars í vegvísi ferðaþjónustunnar,“ sagði Guðmundur Ingi og taldi Þjóðgarðastofnun verða mjög til bóta. 

Og líklega mun ekki skorta sveitarstjórnarmenn sem vilja fá til sín nýja opinbera stofnun.

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Hornafjarðar.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Ég held að öll sveitarfélög, - og við erum ekkert undanskilin þar, - myndum að sjálfsögðu vilja sjá fleiri opinber störf,“ sagði Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri Hornafjarðar. 

„Við myndum svo gjarnan vilja, og teljum mjög eðlilegt, að til dæmis eitthvað í tengslum við yfirstjórn og stjórn á þessum náttúrufyrirbærum, eins og Vatnajökulsþjóðgarði, væri hér í sveitarfélaginu. Það er engin launung á því. Við höfum haldið því fram í fjölda ára að yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs ætti náttúrlega að vera í þessari paradís,“ segir bæjarstjóri Hornfirðinga.

Frá Hvanneyri í Borgarfirði. Borgarbyggð býður gamla skólahús Bændaskólans undir Þjóðgarðastofnun.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Og nú hefur sveitarstjórn Borgarbyggðar boðið gamla skólahúsið á Hvanneyri fyrir Þjóðgarðastofnun með vísan til þess að ætlunin sé að skerða skipulagsvald sveitarfélagsins yfir stórum svæðum með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Skorað er á ráðherra og þingmenn kjördæmisins að beita sér fyrir því að stofnunun verði sett niður á Hvanneyri. 

„Mikilvægt er að fagstofnun, sem Þjóðgarðastofnun yrði, sé fundinn staður þar sem hún yrði landfræðilega vel staðsett, myndi starfa í nánum tengslum við meginviðfangsefni sitt og hefði faglegan og samfélagslegan styrk af sínu nánasta umhverfi. Allar þessar forsendur eru til staðar á Hvanneyri í Borgarfirði,“ segir í bókun byggðaráðs Borgarbyggðar. 

„Ég held við verðum samt, - megum aldrei gleyma því, - að við megum ekki gleyma okkur í baráttunni nákvæmlega fyrir því hvar stofnunin er. Það er aðalatriðið að hún verði til. Því hún, - held ég, - eflir til muna þessar stofnanir sem þessir þjóðgarðar okkar eru. Stoðkerfi þeirra eflist mjög mikið með tilkomu Þjóðgarðastofnunar,  - held ég,“ sagði Björn Ingi, bæjarstjóri Hornafjarðar.

Fyrrverandi umhverfisráðherra hafði boðað að lagafrumvarp um nýja Þjóðgarðastofnun yrði lagt fram á vorþingi 2018. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Vill koma á fót Þjóðgarðastofnun

Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í dag í ríkisstjórn áform um að koma á fót Þjóðgarðastofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×