Erlent

Sólstrandarríkisstjórinn bindur enda á lokanir hins opinbera

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, segir samþykktina ótengda myndum sem teknar voru af honum um helgina.
Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, segir samþykktina ótengda myndum sem teknar voru af honum um helgina. Vísir/Getty
Chris Christie, ríkisstjórinn sem gripinn var glóðvolgur í sólbaði á strönd sem hann lokaði sjálfur fyrir almenningi, hefur skrifað undir samning þess efnis að skrifstofur, þjóðgarðar og strandir hins opinbera í New Jersey í Bandaríkjunum snúi aftur til starfa.

Starfsemi skrifstofanna hafði legið niðri í þrjá daga þegar Christie samþykkti nýja fjárhagsáætlun fyrir heimafylki sitt, New Jersey. Öll opinber starfsemi ríkisins er því hafin á ný en Christie vann að samþykktinni ásamt löggjafarþingi Demókrata í New Jersey.

Christie hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir framferði sitt nú um helgina. Teknar voru myndir af honum þar sem hann varði fríi sínu ásamt fjölskyldunni í Island Beach State Park í New Jersey. Þjóðgarðurinn var einn þeirra sem lokaður var fyrir almenningi, að fyrirskipan Christie, en hann þvertók fyrir að hafa notið sólarinnar á blaðamannafundi þar sem hann sat fyrir svörum vegna lokana á skrifstofum hins opinbera.

Þegar myndirnar leiddu annað í ljós sagði talsmaður hans að Christie hefði vissulega ekki látið sólina skína á sig, hann hefði verið með derhúfu.

Christie segist alltaf hafa gert ráð fyrir því að opnanirnar tækju gildi í tæka tíð fyrir þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna, sem haldinn er hátíðlegur í dag, og að samningurinn sé ótengdur atvikinu um helgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×