Fréttastofa Ríkisútvarpsins fjallaði fyrst um málið í desember í fyrra þegar hún sagði farþegaþotu Icelandair hafa flogið óeðlilega nálægt jörðu í vonskuveðri í aðflugi að Keflavíkurflugvelli.
Greindi RÚV frá því að rannsóknarnefnd samgönguslysa væri með málið til rannsóknar og teldi það alvarlegt.
Rannsóknarnefndin hefur birt skýrslu um stöðu málsins en þar kemur fram rannsóknin beinist meðal annars að þjálfunarmálum, veðri, undirbúningi flugs, framkvæmdum á flugvellinum, flugumferðarstjórn og framkvæmd aðflugsins. Þotan var að koma frá Glasgow þegar hún var í umræddu aðflugi.

Þegar flugvélin var komin niður í um fimm hundruð feta hæð yfir jörðu, eða í um 152 metra hæð, fór aðvörun í gang frá jarðvara vélarinnar.
Í kjölfarið hófu flugmenn fráhvarfsflug að sögn rannsóknarnefndarinnar.
Þegar atvikið átti sér stað var rigning, takmarkað skyggni og mikill vindur.
Í frétt RÚV í fyrra kom fram að ef flugvélin hefði haldið áfram að lækka flugið með sama hraða án inngripa flugmanna hefði það tekið hana aðeins örfáar sekúndur að lenda í jörðinni.