Davíð Tómas Tómasson og Jóhannes Páll Friðriksson bætast við dómarahóp alþjóðakörfuknattleikssambandsins, FIBA.
FIBA gaf í vikunni út lista yfir nýja dómara sambandsins og voru Davíð og Jóhannes á þeim lista. Listinn inniheldur alls 96 nýja dómara, enda er mikil endurnýjun í dómarahóp sambandsins.
Fyrr í vetur gaf FIBA út að tekið yrði upp nýtt fyrirkomulag á leyfiskerfi dómara, og nú gilda leyfin í tvö ár í senn. Davíð og Jóhannes fá sín leyfi 1.september, en þeir halda til Zagreb í Króatíu í næstu viku til að undirgangast þjálfun og prófanir.
Fyrir voru Íslendingarnir Sigmundur Már Herbertsson og Leifur S. Garðarsson í hópi FIBA dómara. Ísland á þá fjóra FIBA dómara, tvo FIBA eftirlitsmenn og einn FIBA leiðbeinanda, og hefur þessi hópur aldrei verið stærri.

