Geimvísindamenn hafa nú fundið átta reikistjörnur á braut um stjörnuna Kepler-90. Hingað til hefur eina sólkerfið með átta reikistjörnum verið okkar eigið. Reikistjörnurnar eru ekki talda geta stutt líf vegna nálægðar þeirra við sól sólkerfisins sem er í um 2.545 ljósára fjarlægð.
Áður höfðu sjö reikistjörnur fundist í sólkerfinu með Kepler sjónauka Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, en með aðstoð gervigreindar hefur sú áttunda nú fundist. Nýjasta reikistjarnan hefur fengið nafnið Kepler-90i og fer hún á braut um sólu sína á 14,4 dögum.
Samkvæmt NASA er hitastigið á yfirborði Kepler-90i talið fara yfir 400 gráður. Reikistjarnan er um þriðjungi stærri en Jörðin.
Reikistjarnan fannst með því að láta gervigreind Google fara yfir gögn úr Kepler-sjónaukanum. Gervigreindin fór yfir 35 þúsund möguleg merki um plánetur þar á meðal fann hún Kepler-90i. Þar að auki fann gervigreindin reikistjörnur í sólkerfinu Kepler-80.
Samkvæmt AFP fréttaveitunni búast vísindamenn við því að fleiri reikistjörnur muni finnast en Kepler hefur safnað gögnum um rúmlega 150 þúsund stjörnur. Til stendur að keyra öll gögnin í gegnum gervigreind Google.
Erlent