Viðskipti innlent

Och-Ziff í ruslflokk degi eftir kaupin í Arion

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vogunarsjóðirnir munu eignast allt að 51 prósent hlut í bankanum.
Vogunarsjóðirnir munu eignast allt að 51 prósent hlut í bankanum. vísir/eyþór
Matsfyrirtækið Standard & Poor‘s lækkaði lánshæfiseinkunn Och-Ziff Capital Manangement Group í gær niður í ruslflokk, degi eftir að sjóður á vegum Och-Ziff keypti 6,6 prósenta hlut í Arion banka. Lánshæfiseinkunn fjárfestingarfélagsins er þannig komin úr BB+ í BB.

Vefsíðan Marketwatch hefur eftir sérfræðingi S&P að framtíðarhorfur félagsins séu neikvæðar. Reksturinn hafi farið versnandi og að ólíklegt þyki að félagið geti staðið undir fjárfestingum sínum. Tekjur þess séu óstöðugar vegna færri eigna í stýringu og að þóknanatekjur hafi dregist saman.

Fjórir alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir keyptu tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka, og var tilkynning þess efnis send út síðastliðið sunnudagskvöld. S&P færði Och-Ziff í ruslflokk degi síðar.

Kaupendahópurinn samanstendur af Goldman Sachs, sem eignast 2,6 prósenta hlut í Arion banka, Taconic Capital sem eignast 9,99 prósent, Attestor Capital sem sömuleiðis eignast 9,99 prósent og svo Och-Ziff Capital sem sem keypti 6,6 prósenta hlut.

Í tilkynningu sem Arion sendi frá sér segir að Och-Ziff sé eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði sérhæfðrar eignastýringar og að virði eigna í stýringu þess sé um 34 milljarðar dollara. Meðal fjárfesta Och-Ziff eru lífeyrissjóðir, sjóðasjóðir, stofnanir og styrktarsjóðir, fyrirtæki og aðrar stofnanir, einkabankar og fjársterkir einstaklingar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×