Innlent

Segir það samræmast stefnu Viðreisnar að sameina skólana

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Pawel Bartoszek þingmaður Viðreisnar, segir vel þess virði að skoða sameiningarhugmyndir.
Pawel Bartoszek þingmaður Viðreisnar, segir vel þess virði að skoða sameiningarhugmyndir. Mynd/Anton Brink
„Mín fyrstu viðbrögð að því gefnu að þetta sé eitthvað sem gæti komið nemendum til góða er að ég frekar jákvæður í garð þessara hugmynda,“ segir Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar og nefndarmaður í Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis.

Kristján Þór Júlíusson, menntamálaráðherra, kemur fyrir Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í dag til að greina frá áformum um sameiningu Fjölbrautaskólans í Ármúla og Tækniskólans.

Rekstrarfélag Tækniskólans er í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur.Vísir/Eyþór
Áður hefur verið greint frá því að kennarar við Ármúlaskóla séu uggandi yfir áformunum og að Félag framhaldsskólakennara sé mótfallið hugmyndinni. Félagið bendir á að skólarnir séu ólíkir hvað varðar rekstur og áherslur. Fjölbraut í Ármúla er ríkisrekinn skóli en Tækniskólinn einkarekinn í eigu félagasamtaka. Rekstrarfélag Tækniskólans er í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur.

Sjá: „Segjast uggandi yfir áformum um að einkavæða Ármúlaskóla“

Pawel segir hugmynd Menntamálaráðherra samræmast hugmyndum Viðreisnar. „Þetta samræmist í það minnsta vel þeirri hugmyndafræði sem ég styð og ég myndi segja það já, við erum miðjuflokkur, við erum ekki hlynnt því að einkavæða allt en okkur finnst svona rekstrarform, fjölbreytt rekstrarform, í lagi á stökum stað,“ segir hann. 

„Við erum ekkert hlynnt einkarekstri einkarekstursins vegna. Af því gefnu að það sé fagleg ástæða fyrir þessu þá gæti það reynst vel. Ef við tökum Tækniskólann sem dæmi sem varð til fyrir nokkrum árum með sameiningu nokkurra skóla með mismunandi rekstrarform. Það er mitt mat að sú tilraun hafi upp til hópa heppnast vel þannig að það er full ástæða til að skoða svoleiðis hugmyndir,“ segir Pawel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×