Erlent

Sarkozy ákærður vegna ólöglegrar eyðslu fjár í kosningabaráttu

atli ísleifsson skrifar
Nicolas Sarkozy var forseti Frakklands á árunum 2007 til 2012.
Nicolas Sarkozy var forseti Frakklands á árunum 2007 til 2012. Vísir/AFP
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, mun þurfa að mæta fyrir dóm vegna ásakana um að forsetaframboð hans hafi varið fé umfram fjárheimildir árið 2012. Frá þessu greinir BBC og vísar í ónafngreinda heimildarmenn innan dómskerfisins.

Saksóknarar saka forsetann og kosningalið hans að hafa falsað reikninga til að fela um 22,5 milljónir evra, um 2,7 milljarða króna, sem varið var í kosningabaráttunni þegar hann beið lægri hlut fyrir sósíalistanum Fracois Hollande. Sarkozy hafði þá setið á forsetastóli frá árinu 2007.

Sarkozy hefur ítrekað hafnað því að þau hafi meðvitað eytt fjárhæðum umfram það sem leyfilegt var.

Þetta er í annað sinn í sögu fimmta lýðveldisins sem fyrrverandi forseti er dreginn fyrir dóm. Jacques Chirac var árið 2011 dæmdur í tveggja ára fangelsi og greiðslu bóta fyrir spillingu, en þau brot áttu sér þó ekki stað á þeim tíma sem Chirac gegndi embætti forseta, heldur þegar hann var borgarstjóri Parísar á tíunda áratugnum. Chirac slapp þó við að afplána dóminn.

Sarkozy bauð sig fram til að verða forsetaefni franskra Repúblikana í haust, en forsetakosningar fara fram í landinu í vor. Sarkozy beið þar lægri hlut fyrir bæði Alain Juppé og Francois Fillon, en Fillon bar sigur úr býtum í síðari umferðinni þegar kosið var milli hans og Juppé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×