Guðrún Þórsdóttir, ekkja Jóhannesar Jónssonar sem ávallt var kenndur við Bónus, hefur hafið störf hjá Costco. Þetta má heita eftirtektarverð og jafnvel skondin vending því koma stórverslunarinnar á markað hefur valdið verulegum titringi á smávöru- og matvælamarkaði. Og flest verður versluninni þeirri að vopni, allt gengur þeim í hag því víst er að þeim hefur bæst góður liðsauki í Guðrúnu.
Nafn Jóhannesar í Bónus er skráð feitu letri í verslunarsögu landsins en stofnun Bónuss olli straumhvörfum í matvöruverslun á Íslandi.
Það er Eiríkur Jónsson sem greinir frá þessu á vef sínum og birtir spjall við Guðrúnu. Vísir setti sig í samband við Guðrúnu og hringdi í Costco með það fyrir augum að heyra ofan í hana. Þar varð fyrir svörum Guðrún sjálf, sem starfar á skrifstofunni þar í Kauptúni í Garðabæ auk þess sem hún gengur í tilfallandi störf.
En, hún tók það skýrt fram í samtali við blaðamann að hún veitti engin viðtöl. Hins vegar sé ekkert leyndarmál að hún starfar þar, enda fyrir augunum á þúsundum manna sem koma kátir í Costco á degi hverjum. Og þó ekki vildi hún veita Vísi viðtal var verulega hressilegt og gott í henni hljóðið.
Eiríkur hins vegar hefur eftir henni að gott sé að hrista uppí markaðinum og Costco sé á svipuðum slóðum og Bónus var á sínum tíma. Sjálf starfaði Guðrún á þeim vettvangi og þekkir vel til.
Guðrún og Jóhannes í Bónus bjuggu saman í um áratug og gengu í hjónaband árið 2010.

